140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[11:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi verð ég að segja að sum þeirra verkefna sem um er að ræða að eigi að fá þessa styrki hafa ekkert með aðlögun eða umsókn Íslands að Evrópusambandinu að gera. Að mínu viti er verið að setja fjármuni í verkefni sem koma þessari umsókn í sjálfu sér ekkert við; fín atvinnuþróunarverkefni sem eiga fullan rétt á sér en koma þessu ekkert við.

Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, það dembast yfir okkur EES-gerðir og -reglur sem við tökum allt of sjálfkrafa við. Þar með er ég ekki að segja að ég sé talsmaður þess að við segjum okkur úr samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, alls ekki. Ég held hins vegar að Íslendingar þurfi að herða mjög eftirlit með þeim reglum sem koma í gegnum EES-samninginn til Íslands því að við rekum okkur of oft á að við tökum upp reglugerðir eða lög sem við þurfum ekki að taka upp. Ég nefni til dæmis breytingar á raforkulögum sem við gerðum hér 2003 eða 2004. Það voru mikil mistök að fara þá leið. Við þurftum ekki að fara í þetta ferli því að við gátum í það minnsta fengið aðlögun ef ekki undanþágu frá því að skipta upp raforkukerfinu, svo eitthvað sé nefnt.

Ég tek undir með hv. þingmanni að auðvitað var það gríðarleg bylting fyrir mörg austantjaldslönd að ganga í Evrópusambandið, en hver var valkostur þessara ríkja? Hann var annaðhvort að ganga í Evrópusambandið eða vera undir aga eða ógn í austri. Auðvitað gengu þau í Evrópusambandið. Það er vissulega rétt að það er mikill munur á að fara frá því að vera með naut að draga plóg yfir í að vera með dráttarvélar. Evrópusambandið hjálpaði til þarna, en við þurfum sem betur fer ekki á slíkri aðstoð að halda frá Evrópusambandinu. Nær væri að þeir fjármunir sem verið er að veita hér af hálfu Evrópusambandsins í til dæmis IPA-styrki færu til þeirra ríkja sem virkilega (Forseti hringir.) þurfa á því að halda.