140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[11:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ræðuna. Margar af þeim spurningum eða vangaveltum sem hann var með hafa komið fram í fyrri ræðum í þessu máli og ég hafði hugsað mér að bregðast við sumu af því í síðari ræðu minni í þessu máli hvenær svo sem færi gefst á að halda hana. Ég vil þó svara einu strax sem ég hef reyndar gert þegar í andsvörum í þessu máli og það er spurningin um hvort eitthvað hafi verið greitt af þessum styrkjum. Eftir þeim upplýsingum sem ég veit bestar hefur það ekki verið gert, enda segir í 5. tölulið í 5. gr. samningsins sjálfs að fjárgreiðslur ESB samkvæmt reglum IPA séu háðar því að aðstoðarþeginn efni skuldbindingar sínar samkvæmt rammasamningi þessum þannig að ég lít svo á að það sé óheimilt að gera það nema að þessu máli frágengnu.

Ég vil spyrja hann aðeins út tvennt sem hefur komið upp í þessari umræðu, m.a. hjá hv. þingmanni sjálfum. Annars vegar nefnir hann sérstaklega fjárlögin og þá spyr ég: Skil ég rétt að hann telji mótsagnakennt annars vegar að samþykkja fjárlögin með hinum skýru ákvæðum um tekjur vegna IPA-styrkjanna, sérstaklega þegar haft er í huga að það var sérstök atkvæðagreiðsla um þann tekjupóst í fjárlögunum, og hins vegar að leggjast gegn samþykkt þessa máls? Er hann þá ekki sammála því að að því gefnu að það komi styrkir samkvæmt fjárlögunum þurfi að ganga frá umgjörðinni um þá óháð því hversu umfangsmiklir þeir svo verða?

Hin spurningin er um hvaða skilning hann leggur í hugtakið aðlögun. Er hann sammála mér í því að í hugtakinu fyrirframaðlögun eins og hér hefur verið talað um felist það að Íslandi sé gert að breyta lögum eða stofnanakerfi sínu og gera eins og tíðkast í Evrópusambandinu fyrir fram? Er þingmaðurinn sammála því að (Forseti hringir.) skilja beri hugtakið aðlögun þannig?