140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[11:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eftir því sem hv. þingmaður sagði ætlar hann að svara sumu af því sem kom fram í minni ræðu og hefur komið fram í fyrri ræðum í þessari umræðu hugsanlega í seinni ræðu sinni. Hann sagðist ætla að svara þegar tími gæfist til að flytja hana og því hvet ég hv. þingmann til að flytja hana sem fyrst. Ef það eru einhverjar upplýsingar sem kallað er eftir og hafa kannski ekki komið nógu skýrt fram tel ég mikilvægt að þær komi fram til að umræðan verði markvissari og betri.

Ég kom inn á það í ræðu minni, og fullyrti ekki neitt um þessa hluti eins og hv. þingmaður bendir á, sem hv. þingmaður sagði um að honum væri ekki kunnugt um það, eftir því sem ég best veit, og mér finnst að það ætti bara að vera alveg skýrt, hvort sem upplýsingarnar eru hjá fjármálaráðuneyti eða fagráðuneytum, hvort búið sé að greiða eða ekki eitthvað af þessum styrkjum þannig að það sé alveg á hreinu. Ég geri mér samt fulla grein fyrir því að hv. þingmaður getur ekki tekið sterkara til orða en hann gerði í þessu andsvari vegna þess að hann getur ekki fullyrt um það sem hann veit ekki algjörlega um.

Hv. þingmaður biður mig að útskýra fyrir sér hvað felist í aðildarviðræðum eða aðlögun og hvað gerist í því. Þá verð ég að viðurkenna, og ég kom inn á það í ræðu minni líka, að mér finnst einboðið að þegar menn ákveða að sækja um aðild að Evrópusambandinu sé markmiðið að ganga í það. Öðruvísi sækir ekkert ríki um. Þess vegna hef ég skilið, það getur vel verið að það sé ekki réttur skilningur hjá mér, að meðan á aðildarferlinu stendur eða aðlögunarferlinu, ég er ekki svo ofboðslega fastur í þessum hugtökum, sé viðkomandi umsóknarríki að aðlaga sína stjórnsýslu með það að markmiði að ganga í Evrópusambandið.