140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[12:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Hv. þingmaður á sæti í fjárlaganefnd og kom inn á það í fyrri hluta ræðu sinnar hvernig málinu var komið inn í þingið og að forgangsröðunin væri svolítið bjöguð. Ég vildi heyra álit þingmannsins á því hvort ekki hefði verið eðlilegra að sú þingsályktunartillaga sem við erum að ræða núna hefði komið fram fyrst til að athuga hvort þingið hefði áhuga á því að málið kæmi fram. Síðan hefði frumvarpið, sem við höfum reyndar rætt lítillega fyrr á þessu ferli í þinginu, verið lagt fram og síðan tillögur til fjárlaganefndar. Réttara sagt, rammasamningurinn hefði verið gerður eftir að þingsályktunartillagan og frumvarpið komu fram og síðan hefðu þessar tillögur komið inn í fjárlagagerðina en ekki byrjað á því. Rammasamningnum var haldið í felum og síðan komu þingsályktunartillagan og frumvarpið fram á vorþinginu löngu eftir að fjárlög höfðu verið afgreidd.

Þess vegna langar mig að heyra hvað hv. þingmanni finnst um þetta ferli og einnig hvernig umræðan um þessa IPA-styrki var innan fjárlaganefndar á sínum tíma, hvort fjárlaganefnd hafi verið vel upplýst um þetta, á hvaða forsendum menn töldu sig geta afgreitt fjárlög án þess að fyrir lægi þingsályktunartillaga eða frumvarp um þetta í þinginu, hvað þá að umræða hefði orðið um málið og það hugsanlega samþykkt. Nú vitum við ekki hvað verður ef til að mynda niðurstaðan verður sú að þessi þingsályktunartillaga verður felld og ríkið hafi þar af leiðandi ekki heimild til að gera þennan rammasamning. Hvað verður þá um þær tillögur sem fóru út úr fjárlaganefnd á sínum tíma?