140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[12:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég fer aðeins yfir vinnubrögðin í hv. fjárlaganefnd og það sem snýr að þessu máli þá er annars vegar um að ræða afgreiðslu málsins úr utanríkismálanefnd, eins og hv. þingmaður veit, og það sem snýr að breytingum á skattalöggjöfinni fer í gegnum efnahags- og viðskiptanefnd. Það lá í raun og veru ekki neitt fyrir sem meiri hlutinn í hv. fjárlaganefnd þurfti að gera til að málið næði fram að ganga, svo ég verji hann aðeins, þó ég viti að hv. þingmaður sé ekki að saka hann um neitt annað en ágætisvinnubrögð.

Hv. þingmaður spyr mig um þau ummæli hæstv. utanríkisráðherra að það verði að greiða þessa styrki úr ríkissjóði ef tillagan verður ekki samþykkt. Þá hlýtur hæstv. utanríkisráðherra að vera að boða að hann ætli að flytja tillögur til fjárauka eða eitthvað slíkt, ég átta mig ekki alveg á því. Maður tekur ekki einhliða ákvörðun um að greiða þetta úr ríkissjóði, það þarf að fá samþykktir þingsins þó að margir hæstv. ráðherrar haldi annað.