140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:38]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fæ aðeins að fylgja því áfram sem ég nefndi hér og því miður heyrði hv. þingmaður ekki hvað ég var að segja. Þegar hv. þingmaður var formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar tryggði hann að breytingar voru gerðar á lögum um matvæli, sem urðu að lögum nr. 143/2009, sem byggðu fyrst og fremst á EES-samningnum sem varðaði þá matvælalöggjöfina. Það átti að tryggja betur matvælaöryggi hér á landi. Hugmyndin með IPA-styrkjunum var meðal annars sú að Matís gæti fengið allt að 300 milljónir til að geta staðið við þau lög sem hv. þingmaður stóð að að samþykkja hér á þinginu og tryggja matvælaöryggi, sem ég og hv. þingmaður erum mjög sammála um að sé mjög brýnt að sé lagað á Íslandi. Ítrekað hafa komið upp tilfelli þar sem sýnt hefur verið fram á það, m.a. meðan hv. þm. Jón Bjarnason sat í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, að ástand matvælaöryggis hér á landi er (Forseti hringir.) fullkomlega óásættanlegt.