140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:39]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Það er rétt, ég var formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þegar við settum fram þessa undanþágu í blóra við tilskipunina en í þágu matvælaöryggis sem okkur er mjög dýrmætt af því að við erum eyland og í þágu dýraheilbrigðis. Það að þiggja styrki til þessa starfs er svipað og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir benti á í fyrirspurn hér nýlega um Kötlusetrið ef ég man rétt. Þetta er spurning um það að Ísland sé sjálfstætt fullvalda ríki og hafi burði til að standa að brýnum verkefnum eins og matvælaöryggi og þurfi ekki að sækja það til annarra þjóða eða Evrópusambandsins. (EyH: Eigum við ekki að selja fiskinn okkar út?) Við getum fullkomlega gert það með samningum.

Ég vil nefna annað dæmi, það er varðandi fosfat í saltfiski sem Evrópusambandið bannaði. Það var vegna þess að Ísland hafði ekki sinnt hagsmunagæslu sinni erlendis. (Gripið fram í: Já.) Það er það sem ég er að tala um, að við erum ekki (Gripið fram í.) að sinna hagsmunagæslu okkar hér heima og við erum að taka upp hráa löggjöf (Forseti hringir.) og við erum að taka við styrkjum sem frjáls og fullvalda þjóð til verkefna sem frjáls og fullvalda þjóð á að kosta sjálf. (Gripið fram í: En ef við eigum ekki peninginn?)