140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rangt að ég hafi ekki nefnt nein dæmi. Ég nefndi sérstaklega matvælalöggjöfina og fjórfrelsið. Og ég tel að þingmaðurinn hafi verið að gefa það í skyn að aðlögun í þeim málaflokkum væri til komin vegna ESB-umsóknarinnar. Það eru EES-mál og menn verða þá að svara því hvort þeir vilji kannski fara út úr EES. Því miður skortir að mínu viti umræðu um það í þessum sal, um EES-samninginn sjálfan. Þar erum við algerlega áhrifalaus og ég er sammála þingmanninum um það að við komum ekki að löggjafarvaldinu í því efni. Það eru mörg dæmi um það.

Hins vegar vil ég líka segja að það hafa verið gerðar breytingar á þinglegri meðferð EES-mála og í fyrsta skipti núna fyrir stuttu síðan skrifaði utanríkismálanefnd Alþingis utanríkisráðherra bréf og óskaði eftir því að tilskipun um gagnageymd yrði ekki tekin upp í EES-samninginn að svo komnu máli. Það hefur ekki gerst áður. Það var vegna þess að það hafði verið farið í ítarlega skoðun á því máli á vettvangi utanríkismálanefndar.

Varðandi spurninguna um það hvort við getum fengið einhverjar undanþágur vil ég bara nefna að til dæmis í samningsafstöðunni um utanríkismál höfum við sett fram okkar sérstöðu sem herlaus þjóð, við höfum sett fram okkar sérstöðu um að við ætlum ekki að vera þátttakendur í Varnarmálastofnun Evrópu o.s.frv. Þetta hefur Evrópusambandið fallist á, það er dæmi um slíkt. En ég mun fara (Forseti hringir.) ítarlegar í þessi efnisatriði síðar í umræðunni.