140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:45]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í þetta mál, það var mjög athyglisvert, sérstaklega þau ummæli hv. þingmanns um að Vinstri hreyfingin – grænt framboð væri gengin í björg og sá stjórnmálaflokkur ætti að koma hreint fram og viðurkenna að hann styddi aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Mig langar að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns, sem er samþingmaður minn úr Suðurkjördæmi, hvort hann hafi orðið var við í síðustu kosningabaráttu að hin einarða afstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gegn ESB-aðild og gegn því að sótt yrði um ESB-aðild hafi komið flokknum mjög til góða í kosningabaráttunni. Í okkar kjördæmi er mikil andstaða við þetta mál og mikilvægt að átta sig á því að maður er stöðugt að hitta kjósendur, fyrrverandi kjósendur Vinstri grænna úr kjördæminu, sem upplifa þessi sinnaskipti flokksins sem svik við það sem sagt var í kosningabaráttunni. (Forseti hringir.) Hvenær telur hv. þingmaður að flokkurinn hafi skipt um skoðun í þessu máli? (Forseti hringir.) Var það þegar aðildarumsóknin var samþykkt eða síðar?