140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:47]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég er talsmaður þess að fólk komi einlæglega hreint fram. Hafi það áhuga á ESB-aðild á það að segja það, styðja það og rökstyðja á grundvelli regluverks ESB og segjast bara vita að það sé okkur í hag. (Gripið fram í.)

Einörð afstaða mín í kosningabaráttunni býst ég við að sé kunn hv. þingmanni og ég hygg að flokkurinn hafi haft góða framgöngu þar út á það mál. En síðan hefur mér orðið ljóst að á tímum bráðabirgðastjórnarinnar frá 1. febrúar til kosninga hafa stjórnarflokkarnir sammælst um það á því tímabili að ganga í ríkisstjórnarsamstarf næðu flokkarnir meiri hluti á þingi, undir þeim formerkjum að sækja um aðild að ESB. Mér var það ekki ljóst. Það að Icesave-samningurinn skyldi koma fram svo fljótt benti mjög til þess, (Forseti hringir.) vegna þess að samningaviðræður áttu sér stað um Icesave-samninginn á meðan á stjórnarmynduninni stóð og áður.