140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:51]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við Ísland innan ramma stuðningsaðgerða sjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB (IPA). Um þetta ætlaði ég að tala í þessari tíu mínútna ræðu minni en maður er eiginlega hálflens þar sem maður er með hugann við þá aðferð og aðferðafræði sem núverandi ríkisstjórn viðhafði í sinni bráðabirgðastjórnartíð eins og kom fram í þeim ummælum sem féllu áðan hjá hv. þm. Atla Gíslasyni.

Ég er sammála hv. þm. Atla Gíslasyni um að við sem störfum í pólitík hljótum að gera það til að berjast fyrir sjónarmiðum okkar. Ef menn vilja leyna því hvaða skoðanir þeir hafa á stórum málum skil ég ekki til hvers þeir starfa í pólitík. Af hverju kemur fólk ekki einfaldlega hreint fram? Ef forustumenn Vinstri grænna voru búnir að semja um að sækja um aðild að Evrópusambandinu áður en til kosninga kom árið 2009, hvers vegna kom það ekki fram í málflutningi þeirra fyrir kosningar? Hvers vegna var verið að slá ryki í augu kjósenda og halda því fram að Vinstri hreyfingin – grænt framboð væri sá stjórnmálaflokkur sem væri hvað mest á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu? Hvernig getur fólk leyft sér að koma svona fram? Það er mér algjörlega hulin ráðgáta. Ég skil ekki til hvers menn og konur eru að berjast fyrir því að fá sæti á Alþingi út á einhvern málflutning sem þeir vita sjálfir að þeir ætla ekki að standa við.

Frú forseti. Ég hef svo margt að segja um málið sem hér liggur fyrir að ég verð að reyna að einbeita mér að því að tjá mig um það og mun nú snúa mér að því. Hér er um að ræða rammasamning sem ríkisstjórn Íslands hefur undirritað. Í þeim samningi sem birtur er sem fylgiskjal er Ísland kallað aðstoðarþegi. Við erum sem sagt aðstoðarþegar, og þegar bara af þeirri ástæðu finnst mér þessi samningur á einhvern hátt vera hálfniðurlægjandi.

Á bls. 7 í þingskjalinu er fjallað um þetta fyrirkomulag og um hvað samningurinn snýst. Hér er vitnað í þær heimildir sem Evrópusambandið hefur til þess að gera samninga sem þessa, en það er reglugerð EB nr. 1085/2006. Sú reglugerð fjallar um að stofna sjóð til að fjármagna aðstoð umsóknarríkja ESB, svokölluð IPA-rammareglugerð. Hún er sem sagt eini lagagrundvöllurinn sem fjárhagsaðstoð við umsóknarríki hvílir á.

Í inngangskafla samningsins segir, með leyfi forseta:

„… fjárhagsaðstoð til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu.“

Hér er byggt á þeim lagagrunni að heimilt sé að gera pólitískar umbætur, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur á Íslandi í því skyni að Ísland geti gerst aðili að Evrópusambandinu.

Þetta er skýrt aðeins nánar í 3. tölulið inngangskaflans en þar segir, með leyfi forseta:

„aðstoðarþeginn“ — þ.e. Ísland — „er aðstoðarhæfur samkvæmt reglum IPA eins og kveðið er á um í IPA-rammareglugerðinni og IPA-framkvæmdarreglugerðinni.“

Ég ítreka þetta og vil leggja áherslu á þetta vegna þess að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur reynt að koma því að hér úr sæti sínu að þessi orð um pólitískar umbætur hafi enga þýðingu, þetta sé bara eitthvert orðalag sem tíðkaðist þegar gerðir voru samningar við austantjaldslöndin sem voru að reyna að komast inn í Evrópusambandið. Það er engu að síður, forseti, algjör markleysa að halda því fram, því að þegar maður les fyrrgreindan 3. tölulið má sjá að þar er vísað sérstaklega í að samningurinn sé grundvallaður á IPA-rammareglugerðinni og aðstoðarþeginn sé aðstoðarhæfur samkvæmt þeirri reglugerð, þ.e. hann getur sótt um aðstoð til þess að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur. Það er ekkert hægt að horfa fram hjá þessu.

Frú forseti. Í 3. gr. samningsins er fjallað um markmið hans. Þau felast í því að samningsaðilar hafa samvinnu sín á milli og undirbúa aðstoðarþegann, þ.e. Ísland, í áföngum fyrir staðla og stefnumið Evrópusambandsins. Íslenska ríkisstjórnin er sem sagt búin að samþykkja að undirbúa Ísland í áföngum fyrir staðla og stefnumið Evrópusambandsins.

Síðan segir hér, frú forseti:

„… þar á meðal eftir því sem við á réttarreglur þess, með aðild í huga …“

Hvernig, frú forseti, er hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að hér sé verið að semja um að Ísland heimili og samþykki að aðlaga réttarreglur sínar að réttarreglum ESB? Þetta stendur hér svart á hvítu og ég skil ekki hvernig er hægt að hártoga það. Í ljósi þess sem ég sagði í upphafi ræðu minnar þá skil ég ekki hvers vegna þeir sem styðja þetta aðildarferli viðurkenna ekki að hér er aðlögun í gangi. Hvað er svona hræðilegt við að viðurkenna það ef menn hafa sannfæringu fyrir því að við séum á réttri leið og séum að gera rétt með því að sækja um aðild? Hvers vegna er þá ekki talað skýrt og fólki sagt satt? Ég skil þetta ekki.

Kannski er þetta bara framhald af því sem hv. þm. Atli Gíslason talaði um áðan, þetta byggir allt saman á því að fólk var blekkt í upphafi. Vinstri hreyfingin – grænt framboð var búin að ákveða fyrir fram að fara inn í þetta ferli án þess að tiltaka það sérstaklega í kosningabaráttu sinni, heldur þvert á móti. Næsti áfangi er að segja heldur ekki rétt til um þetta. Mér finnst það einkennileg pólitík og skil ekki hvers vegna fólk tekur þá að sér að vera í svona störfum.

Frú forseti. Í 5. gr. er fjallað um almennar reglur um fjárhagslega aðstoð. Til að hnykkja enn betur á því að hér stendur svart á hvítu að um aðlögun sé að ræða, segir í b-lið 5. gr.:

„aðstoð skal vera í samræmi við stefnumið ESB og stuðla að samræmingu við réttarreglur ESB.“

Hvernig getur þetta verið skýrara?

Frú forseti. Það er annar þáttur í þessum samningi sem mér finnst mjög mikilvægt að við ræðum ítarlega í þessum sal. Í ljósi þess hver markmiðin með samningnum eiga að vera er mjög hollt og gott fyrir okkur öll að kynna okkur þá kröfu Evrópusambandsins samkvæmt samningnum að allir þeirra styrkir séu mjög sýnilegir og alveg ljóst sé hvar Evrópusambandið kemur að málum.

Í e-lið 1. töluliðar 5. gr. samningsins er fjallað um að aðstoðarþeginn eigi að tileinka sér áætlanagerð og framkvæmd aðstoðar. Þar segir m.a., frú forseti, með þínu leyfi:

„… tryggja ber viðeigandi sýnileika aðstoðar ESB,“

Hvers vegna leggur ESB svona mikla áherslu á þetta? Er það til að hafa áhrif á afstöðu manna til Evrópusambandsins? Hver ætti tilgangurinn annars að vera með því að leggja svo mikla áherslu á sýnileikann? Það er ekki nóg með að þetta sé tiltekið í 5. gr. heldur fjallar 10. gr. eingöngu um kynningu og sýnileika. Í 1. tölulið 10. gr. segir m.a., með leyfi forseta:

„Upplýsingunum skal beina til borgaranna og þeirra sem aðstoðina þiggja í því skyni að varpa ljósi á hlutverk ESB og tryggja gagnsæi.“

Það er því alveg augljóst, frú forseti, að Evrópusambandið leggur mikla áherslu á að það sé alveg ljóst að það er sjálft Evrópusambandið sem kemur hér og styður þessi ágætu verkefni.

Í fyrri ræðu minni um þetta mál lenti ég í andsvörum við hv. þingmenn stjórnarliðsins, m.a. Mörð Árnason, um Kötlu jarðvang eða Katla Geopark. Ég var spurð að því hvernig ég, þingmaður Suðurkjördæmis, gæti verið svona mikið á móti verkefni í heimabyggð minni. Það er auðvitað fáránlegt að setja hlutina í það samhengi. Þeir sem vilja vita það geta kynnt sér að við öll sem erum þingmenn Suðurkjördæmis höfum stutt þetta verkefni. Það hafði þegar hlotið styrk á fjárlögum, ekki nærri því jafnmikinn styrk og Evrópusambandið getur lagt inn í gegnum IPA-kerfi sitt, en það hefur reyndar ekki fengist heimild fyrir því á Alþingi að taka inn þetta fé. Mér finnst ósvífið af þingmönnum stjórnarliða að halda því fram að við sem erum á móti IPA-styrkjunum séum þar með á móti öllum þeim verkefnum sem hafa sótt um þessa styrki. (Forseti hringir.) Það er fráleitt að tala um hlutina á þennan hátt (Forseti hringir.) og í raun til hreinnar skammar fyrir Alþingi að menn skuli leggjast leggjast svona lágt í umræðum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)