140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:08]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel mig hafa svarað spurningunni áðan vegna þess að með því að ganga í EES vorum við ekki að ganga í ESB. (Gripið fram í: … aðlaga okkur.) Við gengum í EES og vorum þá að skuldbinda (Gripið fram í.) okkur til að taka ákveðin réttarsvið inn í okkar rétt en ekki öll, svo við samþykktum ekki þá að aðlaga okkur að fullu leyti að ESB. Ég get engan veginn samþykkt það. Fyrir utan samninginn stóðu á þeim tíma meðal annars sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Og vill hv. þingmaður halda því fram að eftir undirritun EES-samningsins hafi átt að breyta öllu, líka því sem stendur utan EES-samningsins? (Gripið fram í.)

Varðandi styrkina þá er það ekki þannig að þótt ég sé á móti þessu máli hér, sem fjallar um IPA-styrkina, þá sé ég á móti öllum styrkjum í heiminum sem veittir eru, það er ekki svo. Þessir styrkir miðað við þann samning sem fyrir liggur eru veittir með því markmiði að gera meðal annars pólitískar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Ég get ekki fellt mig við það. Í ljósi þess sem ég sagði í ræðu minni, þeirri áherslu sem Evrópusambandið leggur á það að þátttaka og styrkveitingin sé í nafni ESB verði að vera mjög áberandi og sýnileg, þá er alveg augljóst hver tilgangurinn er með þessum samningi. Ég felli mig einfaldlega ekki við þá aðferðafræði og þá hugmynd að aðstoðarþeginn, Ísland, sé að taka við fjármunum til að reyna að auka og bæta ímynd Evrópusambandsins á Íslandi.