140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Já, hér er deilt um það hvort um aðlögun sé að ræða eða ekki. Það kom fram í máli hæstv. utanríkisráðherra í morgun að við værum ekki að breyta stofnunum og okkar lögum vegna þessarar umsóknar. Ég tel einfaldlega að það sé rangt. Þess vegna skil ég ekki hvernig hæstv. utanríkisráðherra getur farið fram með þetta úr ræðustól þingsins trekk í trekk og ekki nóg með það, heldur hefur hann svarað sambærilega í skriflegu svari til þingsins. Þetta er alveg með ólíkindum, sérstaklega þegar rýnt er í 5. gr. þessa samnings sem nú er til umfjöllunar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Eftirfarandi meginreglur gilda um fjárhagslega aðstoð ESB samkvæmt reglum IPA:

a) aðstoð skal vera í fullu samræmi við meginreglurnar um samfellu, heildstæðni, samræmingu, samvinnu og samþjöppun,

b) aðstoð skal vera í samræmi við stefnumið ESB og stuðla að samræmingu við réttarreglur ESB“.

Hvernig geta menn farið í gegnum slíka heilaþvottastöð eins og samfylkingarþingmenn gera? Hér stendur þetta svart á hvítu og hefur svo verið um langa hríð.

Einnig er verið að fjalla um að aðlögun hafi byrjað þegar við urðum aðilar að EES. Það er einfaldlega rangt því það var að kröfu ESB að við urðum að lögleiða í EES-samninginn til dæmis greiðslur í þróunarsjóð EFTA, sem var samningsbundinn áður. Og svo höfum við þurft að taka upp evrópska loftslagskerfið vegna þess að umsóknin lá inni. Það hefur líka komið fram í þingræðum. Þetta er því alveg með ólíkindum að fólk skuli bæði vera að hafna því að hér sé aðlögun í gangi og jafnframt að aðlögunin hafi hafist 1994 (Gripið fram í.) þegar við urðum aðilar að EES.

Mig langar til að spyrja þingmanninn aðallega út í það hvað henni finnist um orð hæstv. utanríkisráðherra frá því í morgun. (Gripið fram í.)