140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:19]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vildi aðeins víkja að nokkrum atriðum varðandi umsóknir um þessa IPA-styrki, aðlögunarstyrki Evrópusambandsins. Það hefur komið mjög skýrt fram í umræðunni að þeir styrkir sem þarna er um að ræða standa umsóknarlandi til boða til að aðlaga stjórnsýslu sína, stofnanir og stuðningsverk kröfum Evrópusambandsins. Það er eðlileg krafa hjá Evrópusambandinu sjálfu eftir samningana við Noreg sem voru felldir og að Norðmenn höfðu ekki farið út í neina aðlögun á tímabilinu heldur bara gert samningana sem síðan voru felldir og þá hafði Evrópusambandið að eigin mati lagt verulega í án þess að fá nokkuð til baka. Þegar Austur-Evrópulöndin fóru að sækja um var ljóst að innra kerfi þeirra var í mörgu ábótavant og til þess að geta látið aðildina ganga sem hraðast fyrir sig var stofnaður sérstakur sjóður af hálfu Evrópusambandsins til að styrkja þessi ríki, hjálpa þeim til að uppfylla þær kröfur sem Evrópusambandið gerði í aðlögunarferlinu þannig að þegar svokölluðum samningaviðræðum væri lokið væri líka búið að laga innra kerfi og innri uppbyggingu þessara landa að Evrópusambandinu þannig að strax við atkvæðagreiðsluna, þegar viðkomandi samningar höfðu verið samþykktir, gat landið orðið fullgildur aðili og tekið þátt.

Þetta sama er líka eðlileg krafa af hálfu Evrópusambandsins og ESB-sinna hér, þ.e. að þetta aðlögunarferli sem við erum núna með í gangi þannig að þegar, og ef, samningum lýkur og verða samþykktir geti Ísland orðið fullgildur aðili að Evrópusambandinu strax frá fyrsta degi enda er það sett sem skilyrði.

Ég fékk fyrst að vita af þessum styrkjum þegar til mín kom tölvupóstur úr forsætisráðuneytinu 18. ágúst 2010. Tölvupóstur barst öllum ráðuneytum um að nú þyrftu þau að sækja um þessa styrki. Ég vil leyfa mér að lesa upp úr þessu bréfi. Þetta var sent á mjög marga aðila og er í sjálfu sér ekkert leyndarmál, enda eiga alls ekki að vera nein leyndarmál í kringum þessa Evrópusambandsumsókn enda var lofað að allt ferlið væri mjög opið. En þá kemur svona bréf til allra ráðuneytisstjóra og ráðherra, frú forseti:

„Kæra samstarfsfólk. Í framhaldi af umfjöllun á ráðuneytisstjórafundi sendi ég þér í viðhengi skipulag í tengslum við stuðningsaðgerðir ESB í umsóknarferlinu sem samþykkt var á síðasta fundi ráðherranefndar um Evrópumál. Gert er ráð fyrir að allar verkefnaumsóknir um IPA-styrki fari til umfjöllunar í sérstökum IPA-stoðhópi sem forsætisráðuneytið leiðir. Jafnframt er gert ráð fyrir að ráðuneytisstjórahópurinn myndi IPA-samráðsnefnd sem fer yfir þau verkefni sem stoðhópur IPA leggur til að fari í umsóknarferli hjá Evrópusambandinu. Eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir því að öll ráðuneyti skili tillögum að verkefnum til IPA-stoðhópsins fyrir lok þessarar viku, þ.e. í síðasta lagi föstudaginn 20. ágúst næstkomandi.“

Ég vek athygli á því, frú forseti, að þetta bréf er dagsett 18. ágúst og þarna fékk ég fyrst formlega að vita af því að þetta væri í gangi. Síðan eru tilgreindir tengiliðir í forsætisráðuneytinu og hvernig með skuli farið. Framkvæmdastjórn ESB, með leyfi forseta, svo ég vitni aftur til bréfsins, „hefur óskað eftir því að tillögur að verkefnum liggi fyrir fyrir 1. september 2010 og í framhaldi af því hefst samráðsferli sem getur tekið nokkurn tíma en leggja ber áherslu á að það er framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem ákveður að loknu því samráði hvaða verkefni verða fyrir valinu“.

Það er alveg ljóst að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er með yfirumsjón með þessum verkefnum, vald yfir þeim og síðan að fylgja eftir framkvæmdinni.

Þegar þetta bréf barst varð ég nokkuð hissa. Ég vissi ekki að ferlið væri komið í þann farveg að við ættum að fara að sækja um sérstakt fjármagn sem veitt er umsóknarríkjum til aðlögunar að Evrópusambandinu í umsóknarferlinu. Ég brást við með því að ég lýsti því yfir að ég vildi fá að kanna þetta nánar og teldi að þetta samrýmdist ekki samþykkt Alþingis þegar Alþingi sótti um aðild að Evrópusambandinu og að þetta samrýmdist því ekki að við færum að taka við stuðningsfé beinlínis til aðlögunar í ferlinu.

Ég fékk heldur kaldar kveðjur. Ég minnist þess að hæstv. forsætisráðherra tjáði sig opinberlega um það að Jón Bjarnason ætti að huga að stöðu sinni í ríkisstjórn þegar ég lagði þessa einföldu spurningu fram. Ég vildi fá upp á borðið hvað hér væri á ferðinni. Það var ekki ætlunin að menn veltu því neitt fyrir sér heldur átti bara að sulla sér beint út í díkið svo sem hefur verið hátturinn í þessum efnum.

Ég get svo upplýst að ég óskaði þá eftir því að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tæki þetta mál til skoðunar áður en ég sendi neinar umsóknir um styrkbeiðnir eins og kveðið var á um í þessu bréfi frá forsætisráðuneytinu. Það gekk nokkuð treglega að fá þennan fund en svo var hann haldinn og mig minnir að á þeim fundi hafi verið ákveðið að farið skyldi nánar ofan í þessi mál þannig að frestur til að skila umsóknum var lengdur og óskað eftir því að málið fengi nákvæmari skoðun. Síðan kom þetta mál aftur formlega inn og var greint frá því í ríkisstjórn skömmu fyrir hátíðar þetta sama ár, 2010, og var þá aftur sent til umfjöllunar í þingflokkunum. Hjá okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði kom málið að minnsta kosti aftur til meðferðar í þingflokknum og það verður bara að segjast eins og er að á þeim tíma voru miklar deilur um það. Þeir hv. þingmenn Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason voru mjög virkir í þeirri umræðu og vildu fá nánari skýringar ásamt þeim sem hér stendur og fleirum um hvað væri á ferðinni, hvort þetta samræmdist umsókninni sem send var, hvort Alþingi hefði þegar samþykkt þetta. Málið var aldrei á þeim tíma afgreitt úr þingflokknum vegna mjög skiptra skoðana um það.

Það er athyglisvert að í því bréfi sem sent var af hálfu forsætisráðuneytisins 18. ágúst 2010, um að ráðuneytin ættu að fara að sækja um þessa styrki, er hvergi greint frá neinum fyrirvara um hvort það sé lagaleg stoð fyrir þessu, lagaheimild eða heimild Alþingis til að taka á móti þeim. Þannig fannst mér umræðan ganga fyrst í stað, að menn teldu að það þyrfti ekki að vera. Þegar ég síðan hafnaði því að fara að sækja um styrki á grundvelli aðlögunar á stofnunum ráðuneytisins og bar meðal annars fyrir mig að ég teldi að Alþingi hefði ekki heimilað það fórum enn að velta fyrir okkur hvort nægar heimildir væru fyrir hendi til að ráðast í þessa aðgerð. Síðan þá hefur komið á daginn, ég sé að tími minn er búinn, frú forseti, en ég hefði gjarnan viljað fara nánar inn í þetta ferli, hvernig það kemur síðan eftir á að átta sig á því að þurfa að fara að sækja heimildir Alþingis fyrst til að mega ganga til slíkra samninga og síðan aftur samþykkja lagafrumvarp til að útfylla þá. Þegar Alþingi hefur samþykkt slíka heimild (Forseti hringir.) er eðlilegt að í kjölfarið séu sett lög eða reglugerðir til að uppfylla þá heimild sem Alþingi hefur sett en það kom ekki fyrr en löngu seinna, (Forseti hringir.) eftir að þessi beiðni hefur verið send áfram til ráðuneytanna um að þeir færu að undirbúa umsóknir um þessa aðlögunarstyrki.

(Forseti (ÞBack): Forseti minnir hv. þingmenn á ræðutímann, það er tímamörk.)