140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:30]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni kærlega fyrir ræðu hans. Þingmaðurinn hefur setið á þingi frá 1999 þannig að hann kom eftir að við gengum í gegnum samningaferlið og innleiddum EES-samninginn. Ég þakka sérstaklega hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir að benda mér á að ég talaði um 1992, en það má segja að EES-samningurinn hafi verið unninn á tímabilinu 1989–1991. Fyrsta greinin tók gildi í byrjun janúar 1993 og afgangurinn af samningnum 1994.

Hvað telur hv. þingmaður að hann hafi samþykkt eða staðið að mörgum ályktunum og frumvörpum á þessum tíma, þ.e. frá 1999, sem hafa falið í sér aðlögun að Evrópusambandinu? Eitt dæmi er einmitt frumvarpið um nýju matvælalöggjöfina sem (Forseti hringir.) þingmaðurinn kom á í stöðu sinni sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, (Forseti hringir.) til að minna hann á eitt stórt mál.