140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:31]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi matvælalöggjöfina er rétt að minna hv. þingmann á að það var líklega í utanríkisráðherratíð þáverandi formanns Framsóknarflokksins, Halldórs Ásgrímssonar, sem gerður var samningur við EES-ríkin um að fella brott þær undanþáguheimildir sem við höfðum í ákveðnum viðauka og lutu m.a. að dýraheilbrigði o.fl. Það hafði verið gert án þess að setja neinn stjórnskipulegan fyrirvara um það að við mundum ekki innleiða t.d. dýraheilbrigðiskaflann. Vinna okkar í þinginu fólst fyrst og fremst í að bjarga því sem bjargað varð og því sem hægt var að bjarga með íslenskum lögum sem heimiluðu hvorki frjálsan innflutning á lifandi dýrum (Forseti hringir.) né heldur frjálsan innflutning á hráu, ófrosnu (Forseti hringir.) kjöti á forsendum dýraheilbrigðis.