140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:37]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar sem koma beint að kjarna málsins eins og hv. þingmanns er von og vísa í þessu máli.

Alþingi sendir þessa umsókn og hún er skilyrt. Alþingi sendir ríkisstjórninni heimild til að sækja um og umsóknin er skilyrt því að ekki verði vikið frá þeim meginhagsmunum sem þar eru tilgreindir. Þess vegna lagði ég áherslu á það í starfi mínu að ég mætti ekki gera neitt sem gengi á rétt Íslendinga eða gegn ákvörðun Alþingis eða þeim fyrirvörum sem það setti í þessu máli, þar á meðal að þiggja þessa aðlögunarstyrki.

Ég sagði: Ég fer ekki í að sækja um þessa aðlögunarstyrki. Í fyrsta lagi er ég á móti þeim og tel ekki heimild fyrir þeim. Í öðru lagi hefur minn flokkur lýst sig andvígan því að það verði gert og ályktað mjög ákveðið gegn því að við tökum við aðlögunarstyrkjum frá Evrópusambandinu. Í (Forseti hringir.) þriðja lagi tel ég ekki vera heimild fyrir því af hálfu Alþingis. Á meðan svo er get ég ekki haft frumkvæðið að því að sækja um slíka styrki. (Forseti hringir.) Ég sagði stofnunum mínum, sem heyra undir ráðuneytið, að það yrði því ekki gert.