140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:08]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi farið yfir reglugerðina nr. 1085/2006, sem heimild ESB til að gera þennan samning við Ísland byggir á. Hefur hv. þingmaður kynnt sér efni þess samnings með það að markmiði að skoða hvort þar sé eitthvað fjallað um endurkröfurétt Evrópusambandsins gagnvart þeim aðstoðarþegum sem síðan verða ekki aðildarríki? Í 2. gr. samningsins er fjallað um hvernig lögskýring skuli fara fram, 2. gr. heitir Ógildingarhluti og óviljandi eyður. Hún er um það þegar vantar upp á og hlutir eru ekki skýrir þá er vísað til þess að hlutirnir verði þá skilgreindir á þann veg að þeir eigi að vera í samræmi við IPA-rammareglugerðina, þ.e. þessa nr. 1085/2006.

Hefur hv. þingmaður kynnt sér efni þessarar reglugerðar með það fyrir augum að reyna að upplýsa hvort okkur ber að endurgreiða ef við göngum ekki í Evrópusambandið og hefur það verið skýrt af hálfu meiri hlutans eða þeirra sem tala fyrir þessari tillögu svo að hv. þingmaður viti til? Ég hef ekki orðið þess vör að menn hafi farið það djúpt ofan í umræðuna en það er ágætt þegar maður er að gera stóra samninga að lesa undirgögnin og sérstaklega þegar þau virðast vera bindandi varðandi skýringu á samningnum líkt og hér er vísað til í 2. gr.