140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:17]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það var alltaf feluleikur í kringum þessa umsókn. Einstaka hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar fluttu boðskapinn frá Vinstri grænum um að þeir mundu ekki taka við svokölluðum IPA-styrkjum og þar fram eftir götunum, við þekkjum það. Við þekkjum allan blekkingavefinn í kringum þetta mál og krókaleiðirnar, að einstaka ráðherrar mundu ekki sækja um og reynt að koma þessu inn í samninganefndina og þess háttar, það er hárrétt ábending hjá hv. þingmanni.

Ég hef gert alvarlegar athugasemdir við að þessi samningur, sem er undirritaður 8. júlí 2011, skuli koma til umræðu eftir áramót eftir að búið er að samþykkja fjárlögin þar sem gert er ráð fyrir hálfum milljarði af þessum framlögum á þessu ári, þessum 496 milljónum. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hún geti tekið undir það að heiðarlegast hefði verið, líka gagnvart Evrópusambandinu, sem gerir þær kröfur að ríki uppfylli þau skilyrði sem rammasamningurinn gerir ráð fyrir, að þessi umræða hefði verið kláruð á haustþinginu 2011 áður en gengið var frá þessum pósitífu ákvæðum inn í fjárlögin. Þá hefðu menn vitað að það yrði niðurstaða Alþingis að sækja um og taka á móti þessum IPA-styrkjum — eða svokölluðum aðlögunarstyrkjum sem þeir eru klárlega, það þarf ekki að deila um það því að það kemur mjög skýrt fram.

Það kemur líka mjög skýrt fram í þessum rammasamningum hvaða skilyrði stjórnvöld þurfa að uppfylla til að geta tekið við þeim. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hún geti tekið undir það sem ég hef gert alvarlegar athugasemdir við að þetta skuli ekki koma inn í þingið fyrr en eftir áramót. Það er veikleiki að hafa tæpar 500 milljónir inni í fjárlögum án þess að það sé klárt hvort niðurstaða þingsins verði sú að taka við þessum aðlögunarstyrkjum.