140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að upplýsa það í byrjun að þetta eru ekki bara 500 milljónir, þetta eru 596 milljónir. Það eru tæpar 600 milljónir sem voru settar inn í fjárlög eins og hv. þingmaður fór yfir. Ég biðst ég afsökunar á að hafa ekki haft tíma til að svara þessari spurningu í fyrri umferð.

Ég gerði athugasemd við það, því að ég er varamaður í fjárlaganefnd, hvernig stæði á þessum greiðslum frá Evrópusambandinu inn í fjárlög þar sem ekki væri lagastoð fyrir þeim. Ég fékk engin svör þannig að ég sendi skriflega fyrirspurn á hæstv. utanríkisráðherra og spurði að því á hvaða lagastoð þessi heimild væri byggð. Svarið frá hæstv. utanríkisráðherra var: Þetta er nú meiri vitleysan, auðvitað er lagastoðin byggð á fjárlögum ársins 2012. Þannig var nú þekkingin hjá hæstv. utanríkisráðherra eða við skulum segja blekkingaleikurinn, vegna þess að í dag erum við að ræða þessa þingsályktunartillögu sem ein getur aflétt fyrirvörum um að við megum taka við þessum peningum. Þess vegna hefur framkvæmdarvaldið með því að leggja til að þetta verði bókfært inn í fjárlög — og þá hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sem þykist vera á móti aðild að Evrópusambandinu, þetta kom þannig úr ráðuneyti hans — jafnvel gerst brotlegt við íslensk lög með því að leggja fram lagafrumvarp með þessu ákvæði inni svo að meiri hluti þingsins samþykkti þetta ákvæði.

Stjórnskipulegi fyrirvarinn er hér. Samningurinn var undirritaður, eins og hv. þingmaður kom inn á, 8. júlí 2011. Við ræðum þetta nú í lok maí árið 2012. Fyrirvaranum er ekki aflétt fyrr en þessi þingsályktunartillaga er samþykkt. Þess vegna er það alvarlegur hlutur að þessar 596 milljónir hafi verið samþykktar í fjárlögum. En það er nú ekki nýtt að þessi ríkisstjórn fari ekki að landslögum, hún virðist meira að segja vera hafin yfir landslög og reglur.