140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður nefndi undir lok ræðu sinnar þau vinnubrögð sem voru viðhöfð þegar þetta mál var kreist í gegnum þingið með hótunum og hinu og þessu, og hafa fyrrverandi þingmenn stjórnarflokkanna, í það minnsta, kannski einhverjir núverandi þingmenn líka, lýst því hvernig hægt var að afla þessari umsókn fylgis. Það er kannski annað mál.

Mig langar að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi hvort það geti talist eðlileg og góð vinnubrögð að setja í fjárlög ráðstöfun fjármuna sem ekki liggur fyrir að muni innheimtast, þ.e. að ríkið hafi aðgang að þeim fjármunum. Það er alveg ljóst að það lá ekki fyrir þegar fjárlög voru samþykkt hvort samþykkt yrði að taka við IPA-styrkjunum. Við hljótum að spyrja okkur hvort eðlilegt sé að ástunda slík vinnubrögð.

Í öðru lagi er ég hér með nefndarálit meiri hlutans um aðildarumsóknina. Ég hef lesið það gaumgæfilega, eins og flestir þingmenn vonandi, og hef meðal annars leitað á vefnum að skammstöfuninni IPA og enska heitinu yfir þessa styrki og finn ekkert. Það er ekki orð um styrkina í nefndaráliti meiri hlutans. Hvernig stendur á því að þeir eru ekki nefndir í nefndaráliti? Hvernig stendur á því að ekki liggur fyrir þegar umsóknin er samþykkt að þetta kerfi bíði okkar og að komið geti upp sá ágreiningur sem uppi er núna um þetta mál? Það er ekki að finna í nefndarálitinu orð um þessa IPA-styrki.