140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum tvö nefndarálit frá hv. utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf. Þetta tengist umsókn Íslands að Evrópusambandinu sem kunnugt er.

Þetta er viðamikið mál sem leynir á sér. Ég ætla að byrja á því að tala um verkstjórnina. Ég hef reyndar gert það áður en ég held að ég komist ekki hjá því af því að hér er verið að tala um málþóf. Skrifað var undir samninginn 8. júlí 2011, það er bráðum að koma árs afmæli, það eru liðnir nærri ellefu mánuðir, og við erum núna að ræða málið í síðari umr. Þetta er náttúrlega ekki góð verkstjórn, frú forseti. Málið hefði mátt koma miklu fyrr inn en raunin varð. Þetta er eins og margt annað sem við erum að ræða á þessum fallegu sumardögum sem hæstv. ríkisstjórn hefði getað unnið skipulegar og haft betri verkstjórn á.

Í eldhúsdagsumræðunum í gær kom hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, og fór að ræða um grásleppunet, að menn vitjuðu um grásleppunet sem þeir væru búnir að leggja. Það er akkúrat það sem við erum að ræða hérna. Það er búið að leggja net, það er búið að samþykkja fjárlög og það er búið að egna grásleppuna í netin. Alls konar félagasamtök, sveitarfélög og aðrir hafa farið út í mjög skynsamleg verkefni, sem maður sér kannski ekki endilega hvað tengjast aðild að Evrópusambandinu en engu að síður mörg mjög skynsamleg verkefni, af því að hér er allt í einu fullt af peningum. Frú forseti, það er kannski ljótt að líkja kjósendum við grásleppu en nú spriklar „grásleppan“ í netinu og væntanlega vilja margir að þetta verði samþykkt, því fyrr þeim mun betra, því að þá fá þeir styrkina endanlega og geta haldið starfseminni áfram og víkkað hana út jafnvel. Hagstofan verður t.d. með einhverja skýrslugerð sem er mjög nauðsynleg og hefur setið á hakanum vegna fjárskorts, en allt í einu eru til peningar. Þess vegna fannst mér líkingin við grásleppunetið ekki nógu góð vegna þess að það er búið að leggja net fyrir þá aðila sem vilja fara í verkefni.

Ég ætla rétt aðeins að tæpa á spillingu og skattsvikum. Þegar menn gera svona samning, sérstaklega þar sem skattfrelsi er veifað, fara nokkrir tugir eða hundruð heila í gang og reyna að finna göt á samningnum. Maður sem ætlar til dæmis að hanna bækling fyrir Evrópusambandið til að segja íslenskum ungmennum hve gott sé að vera hluti af Evrópusambandinu ræður til þess áróðursmeistara til að setja upp rétt línurit þar sem stundum eru evrur þegar það hentar og stundum krónur þegar það hentar og vissir þættir gleymast. Þessir aðilar fara strax að spekúlera: Er betra að ég starfi frá Íslandi að þessu verkefni eða einhverju öðru landi innan Evrópusambandsins? Stofna ég hlutafélag í Kaupmannahöfn, Færeyjum eða í einhverju öðru landi og vinn þaðan að því að fá þessa skattfrjálsu styrki? Þetta fer strax í gang. Ég er nærri viss um að fjöldi manns fer ítarlega í gegnum þessar reglur, lærir af reynslu annarra þjóða hvernig menn gátu farið fram hjá reglunum þar og teiknar nú upp möguleikana á því.

Samningurinn tekur á þessu. Það hefur lítið verið rætt um samninginn sjálfan. Mér finnst ekki vansalaust að geta ekki um samninginn. Í einum liðnum er einmitt talað um gegnsæi og varnir gegn spillingu. Íslenska ríkið er kallað aðstoðarþeginn — mér finnst það ekkert voðalega skemmtilegt, frú forseti, að íslenska ríkisstjórnin og íslenska ríkið sé nefnt aðstoðarþegi — en þeir sem veita hins vegar aðstoðina heita framkvæmdastjórn. Það er náttúrlega miklu flottara heiti þannig séð.

Ég ætla að tala almennt um reglurnar. Talað er um að aðstoðin sé ætluð til þess að „mæta þeim þörfum sem í ljós koma í umsóknarferlinu og geta aðstoðarþegans til að veita aðstoðinni viðtöku leiða í ljós. Þá skal taka mið af fenginni reynslu,“ stendur hér. Þetta er einmitt það sem þessum styrkjum er ætlað, þeim er ætlað að gera aðlögunarferlið liprara og liðka sérstaklega fyrir skoðunum almennings á því.

Það sem vekur kannski mesta athygli er 1. töluliður b) í 11. gr. Þar stendur, með leyfi forseta, að:

„b) starfslið, sem tekur þátt í starfsemi sem ESB fjármagnar og nánustu fjölskyldumeðlimir þess, skuli ekki njóta lakari fríðinda, réttinda og undanþága en þau sem alþjóðlegt starfslið á Íslandi nýtur að jafnaði samkvæmt öðrum tvíhliða eða fjölhliða samningum eða samkomulagi um aðstoð og tæknilega samvinnu.“

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Þetta þýðir skattfrelsi á öllum sviðum, ódýrara bensín, það er ekki bensíngjald, það er ekki vörugjald, það er ekki stimpilgjald, það er ekki virðisaukaskattur. Menn fá sem sagt bensínverðið strípað. Þeir fá bíla strípaða og hvað sem er. Launin eru strípuð af sköttum og öðru slíku. Þetta á við um þá sem eru búsettir erlendis. Þá er spurning hvort margir hafi ekki hugsað sér að flytja búferlum til Danmerkur eða annað til að notfæra sér þetta. Auðvitað er tekið á því líka en skarpir heilar finna oft og tíðum lausnir á slíku.

Við ræðum skattfrelsi í 3. máli hér á eftir. Ég fór í gegnum það hvernig þetta myndast allt saman. En hvernig stendur á því, frú forseti, að hluti af fólki sem býr á Íslandi tekur ekki þátt í því að borga heilbrigðisþjónustu, vegi og allt það sem við hin erum að borga? Það borgar sem sagt ekki en þiggur allt hagræðið af velferðarkerfinu. Hvernig stendur á því? Lausnina er að finna í Vínarsamningnum frá 1812, frú forseti, þegar riddaramennska og tolleyjar og annað var í Rínarfljóti. Þá var mikilvægt að erlendum sendimönnum yrði ekki refsað með tollum og sköttum og öðru slíku ef þeir væru óþægir. Þá var þetta sett upp, en þetta er orðið löngu úrelt. Skattar hafa hækkað mjög mikið á almenning og velferðarkerfið hefur blásið út og nú byggir ríkið vegi og flugvelli og … (Utanrrh.: Allir eru glaðir.) Nei, allir eru glaðir þeim megin en hinir sem borga skattana, launþegar á Íslandi og iðnaðarmenn, eru ekki eins glaðir. Þeir borga nefnilega fyrir hina. Það er von að hæstv. utanríkisráðherra segi þetta því að flestallt starfsfólkið hjá honum nýtur þessara hlunninda, þessara fríðinda, þessara forréttinda. Auðvitað eiga menn fyrir löngu síðan að vera búnir að taka þetta af.

Það sem ég ætlaði að ræða — nú er tími minn að verða búinn en ég þarf að ræða þetta enn frekar. Ég ætlaði nefnilega að ræða það sem stendur í 2. lið b) í 12. gr.:

„b) ESB-verktakar skulu undanþegnir virðisaukaskatti vegna þjónustu og/eða vara og/eða verka sem er veitt, eru afhentar eða unnin samkvæmt viðkomandi ESB-samningi.“

Þarna er búið að taka burtu virðisaukaskattinn, áður voru vörugjöldin tekin og tekjuskatturinn og annað slíkt. Það stendur reyndar í sömu grein í 2. lið c):

„c) einstaklingar sem eru ekki búsettir á Íslandi og inna af hendi þjónustu […] skulu undanþegnir tekjuskatti á Íslandi vegna tekna sem samningur af því tagi skapar.“

Þetta býður skörpum heilum (Forseti hringir.) margvísleg tækifæri.