140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður hefur kynnt sér vel innihald þingsályktunartillögunnar og samningsins sem hér um ræðir og það sem liggur að baki þessu öllu saman. Hv. þingmaður hefur einnig kynnt sér þá þingsályktunartillögu sem á sínum tíma var lögð fram í þinginu um að ganga til þessara viðræðna og nefndarálit meiri hlutans sem hefur verið leiðarljós þeirra sem keyra þetta mál áfram af mikilli eindrægni.

Ég velti því upp áðan við hv. þm. Birgi Ármannsson hvort þingmaðurinn minntist þess að í nefndaráliti meiri hlutans eða einhverjum þeirra gagna — við skulum halda okkur við nefndarálit meiri hlutans því það er sú biblía sem sumir tala um — sé að finna eitthvað yfir IPA-styrki, útlistun á því hvað bíður okkar, hvað er í boði eða til hvers þessir styrkir eru á annað borð. Ég hef leitað að þessu í nefndarálitinu, lesið það vitanlega og flett því upp með orðaleit á netinu en ég finn bara ekki neitt um IPA-styrki í þessari svokölluðu biblíu þeirra sem vilja halda áfram með málið.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort líta megi svo á að þarna sé enn ein ástæðan til að staldra við, þetta sé enn einn forsendubresturinn sem hefur orðið á ferlinu öllu saman, þegar við erum að fara að taka núna við fjármunum frá Evrópusambandinu, við erum farin að aðlaga stjórnsýslu okkar að einhverju leyti að skilyrðum sem þessir peningar lúta að. Og hvort stjórnvöld séu þá ekki komin út fyrir það umboð sem þau fengu á sínum tíma sumarið 2009.