140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það er nefnilega þannig að sá samningur sem við höfum í tillögu til þingsályktunar vísar aftur í samninga sem gilda innan Evrópusambandsins, bæði framkvæmdasamninga og eftirlitssamninga. Við getum í rauninni ekki rætt þetta af einhverju viti en ég geri ráð fyrir að hv. nefnd sem fór yfir þetta hafi kynnt sér þá samninga sem liggja á bak við. En auðvitað var ekki orð um þetta í þeirri þingsályktunartillögu sem meiri hlutinn lagði til.

Það sem er athyglisverðast af öllu, herra forseti, er einmitt umsóknin sjálf. Ég vænti þess að fólk hafi kynnt sér umsóknina. Hún er fjórar línur og hún er gersamlega fyrirvaralaus. Ég skora á hv. þingmenn sem og almenning að skoða umsóknina því þar stendur bara: Ríkisstjórn Íslands sækir um aðild að Evrópusambandinu. Undir skrifa hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra. Það er ekki orð um ályktun Alþingis, ekki orð um að þetta skuli leggja fyrir utanríkismálanefnd, ekki orð um að þetta skuli fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki orð um að breyta þurfi lögum og öðru slíku og jafnvel stjórnarskrá. Þetta er bara einföld umsókn. Ég hef oft velt fyrir mér, herra forseti, hvað mundi gerast ef þær 27 þjóðir í Evrópusambandinu mundu hreinlega senda bréf til baka og segja já, við samþykkjum.

Allt er þetta gert á grundvelli þess að ríkisstjórnin er tvíklofin í málinu. Hún er með stefnu út og suður. Samfylkingin vill ganga í Evrópusambandið en Vinstri grænir vilja ekki ganga í Evrópusambandið. Ég veit ekki hvert þeir vilja ganga, en þeir vilja örugglega ekki ganga í Evrópusambandið. Þessi tvístefna í flestöllum málum í þinginu gerir þingstörfin mjög þung og er mjög skaðlegt fyrir þjóðina.