140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð í upphafi máls míns að lýsa vonbrigðum mínum með hæstv. utanríkisráðherra sem er í hliðarsal en kemur ekki hingað og notar tækifærið til að svara þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann í ræðu minni. Nú skal það upplýst að við sitjum hér tveir, þrír stjórnarandstæðingar í þessari umræðu og ég held að ef ég væri hæstv. forsætisráðherra mundi ég gera þá kröfu á hæstv. forseta um að slíta þessum fundi þar til fleiri koma í salinn. Það er til dæmi um það, slík krafa var gerð um daginn.

En ég ætla ekki að láta ergelsi mitt gagnvart hv. stjórnarliðum bitna á hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni vegna þess að spurning hans var athyglisverð, hvort verið væri að nota peningana með réttum hætti. Ef bæklingurinn góði sem þingmaðurinn þreytist ekki á að nefna, sem Olli Rehn gaf út, er lesinn vandlega má sjá að þar segir hreint út að styrkirnir séu til aðlögunar, til að undirbúa aðildarríki fyrir aðild að Evrópusambandinu. Maður getur alveg velt því fyrir sér hvað atvinnuátak á Suðurnesjum eða námsátak um Kötlu jarðvang — ég ítreka enn einu sinni þannig að það misskiljist ekki að þetta eru fín verkefni — hafa með aðild Íslands að Evrópusambandinu að gera. Menn hafa sagt að það gæti verið til að undirbúa Ísland í að vera umsóknarríki með aðgang að öllum þeim sjóðum sem Evrópusambandið hefur upp á að bjóða. Það er sú kenning sem ég hef heyrt. En ég held að með þátttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu þar sem við erum fullgildir aðilar, borgum inn og fáum til baka, (Forseti hringir.) séum við orðin býsna góð í að fylla út umsóknir þannig að ég kaupi ekki þá skýringu.