140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:35]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér IPA-styrkina og höfum rætt þá nokkuð mikið. Ég hef haldið nokkrar ræður um þetta mál en ég held að aldrei hafi hv. stjórnarliðar skipst á skoðunum eða svarað þeim spurningum sem ég hef beint til þeirra sem bera þó ábyrgð á þessu máli, koma með málið inn í þingið og bera ábyrgð á því og ættu með réttu að þurfa að svara spurningum sem hafa komið út af þessu máli. Ég ætla þess vegna ekki að reyna að fá svör við því núna af hverju hér er augljóslega um aðlögunarstyrki að ræða og hvernig standi á því þar sem það er þvert á það sem hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa sagt.

Þess í stað ætla ég að fara yfir — þetta snýst jú um aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið — nokkrar missagnir hv. stjórnarliða, sérstaklega hv. þingmanna Samfylkingarinnar, sem hafa verið kallaðir í þessum sal sértrúarsöfnuður og þar er verið að vísa til þess að það eina sem þeir hafi fram að færa í þjóðmálaumræðunni séu aðildarviðræður að ESB og skyldi engan undra að þeir hafi verið kallaðir sértrúarsöfnuður í þessum ræðustól. Ég vil byrja á að vekja athygli á því að núna í júní verða liðnir 36 mánuðir frá því að sótt var um aðild að Evrópusambandinu. Það er algerlega ljóst að aðildarsinnar eru að tefja þessar viðræður. Þeir treysta sér ekki til að sýna á samninginn og ætla þess í stað að reyna að tefja þetta ferli eins lengi og mögulegt er. Af hverju segi ég það? Af því að ég ætla að benda á að þau lönd sem við getum borið okkur saman við í sambandi við þessar aðildarviðræður. Það eru lönd sem voru innan EES og eru nágrannalönd okkar, þ.e. Noregur, Finnland og Svíþjóð. Í síðustu samningalotu þegar Norðmenn sóttu um aðild og felldu síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu tók það þá 16 mánuði að klára samningaviðræðurnar. Núna erum við búin að vera 20 mánuðum lengur en Norðmenn. Finnar kláruðu þetta á 33 mánuðum eða þrem mánuðum fyrr en við sjáum fram á núna í júní. Svíar voru lengst að þessu, það tók þá 42 mánuði. Að því gefnu að við verðum jafnlengi og Svíar mundum við samt sem áður ná að klára þetta fyrir næstu alþingiskosningar og þá væri hægt að kjósa um aðildarsamninginn ef áhugi væri fyrir því af hálfu Íslendinga. Forráðamenn Evrópusambandsins og síðast stækkunarstjórinn, sem hefur komið hingað, hafa sagt berum orðum að hægt sé að klára þetta fyrir næstu alþingiskosningar. Það er engin önnur málefnaleg skýring á því að ekki sé verið að ljúka þessu en sú að aðildarsinnar vilja ekki sýna Íslendingum samninginn. Þeir eru að reyna að tefja þetta eins mikið og þeir mögulega geta og bíða eftir færi þannig að upp komi einhverjar þær aðstæður að hægt sé að keyra samninginn í gegn. Þeir líta á skoðanakannanir, sjá að þetta er fullkomlega vonlaust og koma þá með einhverjar málamyndaskýringar á því af hverju málið er ekki klárað og þetta er tafið von úr viti. Síðan eru menn á einhverjum mjög sérkennilegum leiðum þegar þeir reyna að útskýra af hverju forráðamenn Evrópusambandsins segi að hægt sé að klára þetta fyrir kosningar.

Ég vek athygli á því að málflutningur aðildarsinna gengur ekki út á það að hagsmunum okkar sé best borgið innan Evrópusambandsins, þeir þora ekki að leggja það fram, ekki nema sárafáir, þeir segja aðallega að við eigum að sækja um, sjá hvað er í pakkanum, og síðan muni þeir greiða atkvæði um það sem kemur út úr því. Leiðarahöfundar ákveðins blaðs hafa kallað þetta „kíkið í pakkann kjánar“. Sú lýsing er ekkert fjarri lagi, raunar alls ekki. Evrópusambandið hefur verið til í langan tíma og það er til allra handa litteratúr þar sem menn geta skoðað hvað felst í því að vera í Evrópusambandinu og almenna reglan er sú, og ég held að eina undantekningin séu Íslendingar, að menn kanna hvað felst í því að vera í Evrópusambandinu. Þegar menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að það séu hagsmunir viðkomandi lands að vera í Evrópusambandinu sækja þeir um aðild. Dæmi um þetta er bók Auðuns Arnórssonar, Inni eða úti? Aðildarviðræður við ESB. Önnur bók er Fiskveiðireglur Íslands og Evrópusambandsins: þróun, samanburður og staða Íslands eftir Óttar Pálsson og Stefán Már Stefánsson. Svo ég nefni tvær en auðvitað er til fullt af erlendum litteratúr.

Ég vek athygli á því að í bók Auðuns Arnórssonar, sem seint verður talinn andstæðingur þess að Ísland gangi í Evrópusambandið, segir, með leyfi forseta, á bls. 25:

„Séð frá bæjardyrum Evrópusambandsins snúast aðildarviðræður í raun aðeins um það hvernig hið væntanlega nýja aðildarríki innleiðir alla gildandi sáttmála, löggjöf og stefnumið sambandsins (á vettvangi ESB tíðkast að vísa til þessa alls í heild undir heitinu „acquis“ upp á frönsku). Í reynd er þó alltaf eitthvert svigrúm til að sýna sveigjanleika; oft er samið um sérstaka aðlögun að tilteknum reglum ESB, tímabundnar undanþágur og sérlausnir.“

Svo segir í bók Auðuns Arnórssonar sem gefin er út af Alþjóðamálastofnun og Rannsóknasetri um smáríki. Ef við skoðum hins vegar þennan málflutning í samhengi við þetta, af því að það hefur oft heyrst að við fáum bara undanþágur, það er einhvern veginn lausnin, þegar það er augljóst að allra handa hlutir henta alls ekki Íslandi er það einhvers konar svar að við fáum bara undanþágur, þá segir í bók Stefáns Más og ritum hans, með leyfi forseta:

„Við inngöngu ríkja er því lagalega unnt samkvæmt sambandsréttinum að kveða á um undanþágu fyrir einstök aðildarríki í viðkomandi aðildarlögum. Hins vegar setur sambandið ávallt fram þá meginkröfu í aðildarviðræðum að viðkomandi ríki gangi að öllu regluverki þess óbreyttu, hvort sem um er að ræða bindandi eða óbindandi gerðir eða dóma dómstóls ESB.“

Ég endurtek þetta: „Hins vegar setur sambandið ávallt fram þá meginkröfu í aðildarviðræðum að viðkomandi ríki gangi að öllu regluverki þess óbreyttu, hvort sem um er að ræða bindandi eða óbindandi gerðir eða dóma dómstóls ESB.“

„Ástæðan er einfaldlega sú að öll aðildarríkin eiga að mati Evrópusambandsins að sitja við sama borð. Með öðrum orðum eiga leikreglurnar að vera þær sömu fyrir þau öll. Það á auðvitað alveg sérstaklega við þar sem tekin hefur verið sameiginleg stefna eins og í landbúnaðar- og fiskveiðimálum. Sameiginleg evrópsk stefna hefur náð sérstaklega langt á þessum sviðum. Frá þessu eru í grundvallaratriðum aðeins veittar tímabundnar undanþágur. Þær eru einkum hugsaðar sem aðlögunartími fyrir viðkomandi aðildarríki til að laga sig að breyttum aðstæðum en tímabundnir erfiðleikar ESB geta einnig haft áhrif.“

Ég vil endurtaka þetta, virðulegi forseti, að leikreglurnar eiga að vera þær sömu fyrir þau öll og það á sérstaklega við þar sem tekin hefur verið sameiginleg stefna eins og í landbúnaðar- og fiskveiðimálum. Sameiginleg evrópsk stefna hefur náð sérstaklega langt á þessum sviðum og frá þessu eru í grundvallaratriðum aðeins veittar tímabundnar undanþágur.

Nú skulum við sjá hvað hefur gerst í aðildarviðræðunum almennt við þau lönd sem samið hefur verið við. Til dæmis Noregur, niðurstaða aðildarviðræðna var sú að Norðmenn fengu í engum greinum varanlegar undanþágur frá sameiginlegri fiskveiðistefnu sambandsins, engum. Þetta eru Norðmenn. Það er enginn vafi að það hefði verið mikill hagur fyrir Evrópusambandið að fá þessa ríku þjóð inn en hún fékk enga varanlega undanþágu frá sameiginlegri fiskveiðistefnu sambandsins.

Síðan er það landbúnaðurinn fyrir norðan 62. breiddargráðu sem átti við um útfærsluna á hinum norræna landbúnaði, sem átti við Svía, Norðmenn og Finna. Þar var stuðningurinn samkvæmt þessari grein bundinn ströngum reglugerðarákvæðum sem framkvæmdastjórnin setur, það stóð þannig í textanum. „Af þessu er ljóst að litið er á ákvæðið sem sérstaka útfærslu ESB-réttar. Það er ESB sem ákveður öll skilyrði fyrir stuðningnum og hann getur eftir atvikum alveg fallið í burtu með breyttri stefnu og löggjöf sambandsins“. — Ég er að endurtaka hér óbreytt úr litteratúr Stefáns Más Stefánssonar, sem við Íslendingar og reyndar Evrópumenn almennt vita að þekkir lagaumhverfi Evrópusambandsins mjög vel og EES-svæðisins.

Ég ætla að endurtaka, með leyfi forseta: „Af þessu er ljóst að litið er á ákvæðið sem sérstaka útfærslu ESB-réttar. Það er ESB sem ákveður öll skilyrði fyrir stuðningnum og hann getur eftir atvikum alveg fallið í burtu með breyttri stefnu og löggjöf sambandsins.“

ESB getur breytt einhliða landbúnaðarreglunum sem eiga við landbúnað fyrir norðan 62. breiddargráðu.

Þá er það Malta og undanþágurnar frá fiskveiðistefnu ESB. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þær tilhliðranir sem Malta fékk með þessu er að finna í gerðum Evrópusambandsins. Þeim gerðum getur það auðvitað breytt með þeirri málsmeðferð sem um það gildir innan sambandsins.“

Svo segir í bók Stefáns Más, að Evrópusambandið geti breytt þessum svokölluðu undanþágum sem Malta fékk einhliða.

Virðulegi forseti. Aðildarsinnar víkja algerlega frá þessu. Menn segja bara: Við sjáum hvað við fáum út úr þessu, þ.e. út úr aðildarsamningunum. Eins og það sé bara þannig að aðildarþjóðir sæki um aðild að ríkjabandalagi sem hefur verið til í rúmlega hálfa öld, ef við tökum fyrirrennara þess, og byggir á Rómarsáttmálanum og þar er sérstakt markmið að allir séu settir undir sömu reglur og þannig er það. Svo koma stjórnmálamenn á Íslandi og segja: Við ætlum að sækja um og sjá hvað er í gangi, hvað kemur út úr þessu, eins og þegar Danir sóttu um sem fengu, ja guð má vita hvað, og Svíar sem fengu eitthvað allt annað og Portúgalar þriðju lausnina. En þetta er ekki þannig, virðulegi forseti. Þetta eru sameiginlegar reglur og hinum svokölluðu undanþágum er hægt að breyta einhliða af hálfu sambandsins. Það er algerlega ljóst að við þurfum að vera með í sameiginlegri landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu og það er gersamlega fráleitt að stjórnmálamönnum og jafnvel fræðimönnum sem tjá sig um þessi mál að upplýsa þjóðina ekki um þetta.

Við sjáum líka núna að reynt er að selja Íslendingum þessa hugmynd að ganga í Evrópusambandið á þeirri forsendu að það sé svo gott að vera í sameiginlegu myntbandalagi, evrunni. Maður hlustar á hv. þingmenn Samfylkingarinnar ræða þessi mál og það er eins og þeir hafi ekki aðgang að internetinu, þeir viti bara ekki hvað er í gangi í álfunni. En hver sem vill getur farið á evrópska fréttamiðla, það er svo sem hægt að fara á íslenska líka, sumir sem hafa jafnvel verið mjög fylgjandi Evrópusambandinu neyðast nú til að birta upplýsingar um að virtir hagfræðingar bendi á að það hafi verið mistök að taka upp evruna. Ég hef að vísu ekki séð það í fréttum, það hefur verið birt á þýskum vefmiðlum, Spiegel nánar tiltekið, að það hafi komið í ljós þegar menn hafi verið að gramsa í gögnum að ríkisstjórn Helmuts Kohls vissi að Ítalir gætu ekki uppfyllt þau skilyrði sem voru til staðar til að vera með í evrunni en það var samt sem áður gert. Það sama á auðvitað við um Grikki og þá hefur væntanlega ekki verið sama ríkisstjórn. Í grófum dráttum er þetta bara pólitík, menn fóru ekki í evruna út af efnahagslegum ástæðum heldur pólitískum.

Það hefur margoft komið fram að Þjóðverjar vildu ekki kasta frá sér þýska markinu en hins vegar vildu Frakkar og fleiri fá sameiginlega mynt fyrir Evrópu og síðan voru einhver hrossakaup, þ.e. að Þjóðverjar fengju að sameinast, þ.e. Austur- og Vestur-Þýskaland, gegn því að fórna þýska markinu og taka upp evru fyrir álfuna. Þjóðverjar sneru hins vegar ágætlega á Evrópusambandið og þær reglur sem eru í gildi henta þeim kannski helst. Þeir voru að vísu fyrstir ásamt Frökkum til að brjóta þær reglur sem gilda um evruna og það var sú regla að ef ríki er með of miklar skuldir sem hlutfall af þjóðarframleiðslu þarf viðkomandi ríki að greiða sekt. Þegar Þjóðverjar og Frakkar fóru yfir þessi mörk var þessu sleppt. Ef ég man rétt þurftu hins vegar Írar að greiða sekt þegar skuldir þeirra voru umfram þau mörk sem sett voru. Sökum þess að sameining Vestur-Þýskalands og Austur-Þýskalands varð mjög dýr var sú leið farin og þá voru lágir vextir á evrunni hjá evrópska seðlabankanum sem gerði það að verkum að það flæddi inn ódýrt fjármagn, bæði fyrir opinbera aðila og líka fyrir einkaaðila í Miðjarðarhafslöndunum og Írlandi. Þetta varð mikið vandamál fyrir þessar þjóðir og er grunnurinn að hinni miklu skuldsetningu þeirra og var þvert á það sem þjóðirnar þurftu á að halda í sinni efnahagsstjórn. Síðan kom að skuldadögum og við horfum upp á að þar er gríðarlega alvarlegt ástand. Auðvitað þekkja menn það helst í Grikklandi en Miðjarðarhafshengjan og jafnvel fleiri landa hangir yfir okkur og þetta gæti leitt af sér enn meiri vanda en nú er.

Í grunninn er það svo að það er erfiðara að leysa vandann vegna evrunnar. Það er einn gjaldmiðill hjá mörgum skuldsettum ríkjum, það eru mismunandi fjármálastefnur í þessum ríkjum, tungumál, skólakerfi, menning, lífeyriskerfi, skattkerfi, uppbygging atvinnulífs. Þetta eru svipaðir fjötrar og gullfóturinn var í í byrjun síðustu aldar. Viðskiptahalli og afgangur er mismunandi eftir ríkjum. Í grófum dráttum erum við ekki að horfa á sambærilega stöðu í Bandaríkjunum þar sem menn horfa alltaf á dollarann. Við erum með eins konar bandaríki Evrópu að því leyti til að við erum með Evrópusambandið sem er ekki lýðræðisríki heldur fyrst og fremst skrifræðisbatterí þar sem ekki einu sinni er einn fjölmiðill fyrir allt ESB-svæðið eða þetta myntsvæði. Þar er enginn einn fjölmiðill sem allir lesa á hverjum degi eða hafa aðgang að. Þetta eru svo gríðarlega mismunandi aðstæður ólíkt því sem er til dæmis í Bandaríkjunum.

Evrópusambandið er fyrst og fremst embættis- og stjórnmálamannabandalag byggt í kringum frið og hefur að stórum hluta tekist það, og sumir hv. þingmenn, þar á meðal þingmenn í mínum flokki, segja að það hafi tryggt frið. Því miður hefur það ekki gert það. Við getum nefnt Norður-Írland, Balkanlönd og síðan hefur forusturíki Evrópusambandsins í rauninni valdið stríðum á seinni hluta síðustu aldar. En stóra málið er hins vegar það að friðarbandalagið er að valda hvað mestum ófriði innan álfunnar. Það er kannski vandinn í þessu, og við sjáum það núna að þegar við ættum að standa saman út af ýmsum málum erum við að takast gríðarlega á í þessum sal. Það er hins vegar smámál miðað við það sem gerist annars staðar í álfunni.

Ég vildi svo nota tækifærið og spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Af hverju er verið að tefja aðildarviðræðurnar?