140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:55]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr mig hvers vegna verið sé að tefja aðildarviðræðurnar. Ég get ekki svarað honum með öðrum hætti en þeim að ég reyni alla daga að flýta þeim viðræðum, ég geri og hef gert allt sem ég get til að opna þá kafla sem erfiðastir eru taldir verða í samningunum. Ég nefni þar sérstaklega sjávarútveg, sömuleiðis landbúnað og reyndar aðra kafla líka. Það eru hins vegar ágætar fréttir af aðildarviðræðunum, til dæmis er skammt í það að menn farið að opna byggðakaflann sem er líka mikilvægur. Ég geri mér því vonir um að einnig sé hægt að standa við það sem stækkunarstjórinn sagði í heimsókn sinni í síðustu viku að fyrir kosningar á Íslandi yrði búið að sýna á spilin. En ég geri mér ekki vonir um að búið verði að semja um þessa kafla, að minnsta kosti byggja þær vonir ekki á raunveruleikanum eins og ég met það. Þetta vildi ég sagt hafa, herra forseti, til að svara hv. þingmanni.

Ég er síðan algerlega ósammála hv. þingmanni um að Evrópusambandið sé einhver sérstakur friðarspillir í þeirri góðu álfu, þvert á móti. Sagan sýnir að Evrópusambandið hefur leitt til friðar, þar hefur verið langvarandi og meiri friður en oft áður ef maður skyggnist aftur í söguna. Ég er til dæmis algjörlega ósammála því sem hv. þingmaður nefndi varðandi Balkanlönd, ég er þeirrar skoðunar að sú áhersla sem Evrópusambandið hefur lagt á sjálfsstjórn svæða hafi meðal annars leitt til þess að ófriðurinn sem þar var og hefur að sönnu slotað á síðustu árum, að Evrópusambandið og stefna þess eigi svolítinn þátt í því, kannski meiri en okkur grunar núna.

Síðan langar mig til að rifja það upp fyrir hv. þingmanni að einn af pólitískum leiðtogum lífs hans, forsætisráðherra Breta, hvetur um þessar mundir til þess að gripið sé til allra þeirra aðgerða sem hægt er að gera til að styrkja Evrópusambandið vegna þess að hann telur að það sé nauðsynlegt fyrir efnahag álfunnar og ekki síst fyrir efnahag Breta.