140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að hrósa hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í umræðunni. Það er mjög til fyrirmyndar og ég vek athygli á því að hann er eini stjórnarliðinn sem þorir að mæta og ræða um málið, hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson, og fær hann miklar þakkir fyrir.

Við erum með hæft fólk í þeirri nefnd sem semur og sækir um aðild að Evrópusambandinu fyrir okkar hönd. Norðmenn voru 16 mánuði að því, Finnar 33 mánuði, Svíar 42 mánuði og það stemmir ekki að ekki sé hægt að gera það á skemmri tíma hér ef vilji er fyrir því að klára það.

Varðandi friðinn er það barnaskapur að tala um að Evrópusambandið hafi komið á einhverjum frið almennt. Auðvitað var engin hætta á því eftir stríðslok að Vestur-Evrópa færi í stríð innbyrðis. Það var fullkomlega óraunhæft. Hún var byggð upp með Marshall-aðstoð, bæði sigurvegararnir og þeir sem töpuðu fengu slíka aðstoð. Síðan hófst kalda stríðið og hefur NATO átt drjúgan þátt í að halda friðinn á milli austurs og vesturs. Norður-Írlandi var mikið stríðssvæði og stóðu Bretar sjálfir í deilum um hvort það hafi verið Tony Blair eða John Major sem átti mestan þátt í því að stilla til friðar þar. Ég geri ekki lítið úr því að Evrópusambandið hafi reynt að stuðla að friði og gert margt gott í þeim efnum en hins vegar er þetta mikil einföldun. Það er enginn vafi að deilurnar eru til komnar út af samrunanum.

Af því að hæstv. ráðherra nefnir David Cameron hefur hann ekki lagt á það áherslu að menn leysi þann vanda, sem skapast hefur út af samrunanum, með meiri samruna. Þetta er samrunavandi, evran er samrunavandi og það er bara ekki rétt að leggja málið upp með þessum hætti.

En ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju segja menn ekki satt og rétt frá, að undanþágurnar eru tímabundnar? Við þurfum alltaf að vera undir regluverki ESB og eins og á Möltu og (Forseti hringir.) hinum Norðurlöndunum eru undanþágurnar sem þar eru, sem Stefán Már Stefánsson skrifaði um, umbreytanlegar (Forseti hringir.) einhliða af hálfu Evrópusambandsins.