140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Í lok mars tefldi ríkisstjórnin fram tveimur frumvörpum sem annars vegar er ætlað að hækka veiðileyfagjald og hins vegar að breyta umgjörð íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins. Í kjölfarið komu fram gríðarlega miklar athugasemdir frá nær öllum sem fjölluðu um frumvörpin tvö. Jafnframt lögðu hagsmunaaðilar þunga áherslu á hversu alvarlegar afleiðingar þessi frumvörp mundu hafa fyrir sjávarútveg á Íslandi sem er, eins og við vitum öll, grunnatvinnuvegur þjóðarinnar. Þegar líða tók á aprílmánuð og í byrjun maí fóru raddir stjórnarliða að heyrast um að þetta væri bara til umfjöllunar, auðvitað yrði tekið tillit til athugasemda.

Nú hafa komið fram breytingartillögur við þessi tvö frumvörp og þær breytingartillögur eru í meginatriðum smávægilegar tæknilegar breytingar þar sem verið er að sníða af smávægilega agnúa. Ekki er þó með neinu móti komið til móts við þær umsagnir og athugasemdir sem gerðar hafa verið við frumvörpin í grundvallaratriðum. Við erum því í nákvæmlega sömu stöðu og í lok mars, fyrir þinginu liggja tvö frumvörp með smávægilegum breytingartillögum sem setja munu sjávarútveg í algert uppnám í náinni framtíð.