140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Í gærkvöldi var sýndur athyglisverður þáttur í ríkissjónvarpinu um líf venjulegs fólks í Grikklandi sem býr við atvinnuleysi, matarskort og vonleysi af völdum efnahagskreppunnar, kreppu sem venjulegt fólk ber litla sem enga ábyrgð á og getur ekki flúið með eignir sínar og tekjur í öruggt skattaskjól.

Nýlega barst Alþingi áskorun frá hópi kjósenda hér á landi sem lætur sig harðræði grísks almennings varða. Það er áskorun um að Alþingi samþykkti stuðningsyfirlýsingu við grísku þjóðina sem gengur í gegnum miklar efnahagsþrengingar af völdum bæði fjármálakreppunnar og efnahagsaðgerða sem Stiglitz hefur líkt við sjálfsmorð.

Ég tók þessa áskorun upp á mína arma og hvatti aðra þingmenn til að vera með á henni. Því miður brugðust aðeins tveir hv. þingmenn við hvatningu minni en við ákváðum þrátt fyrir það að leggja fram þingsályktunartillögu sem felur í sér stuðningsyfirlýsingu við grísku þjóðina.

Frú forseti. Ég er komin hingað upp til að hvetja þingmenn til að samþykkja þessa stuðningsyfirlýsingu fyrir sumarfrí. Í ályktuninni er athyglinni fyrst og fremst beint að stöðunni eins og hún er í dag en ekki að rót vandans til að tryggja að sem flestir þingmenn geti stutt þingsályktunartillöguna. Það er skoðun okkar flutningsmanna að tímabært sé að þjóðþing í Evrópu bregðist við neyðarhrópum grísks almennings. (Forseti hringir.) Það er í raun skammarlegt hvernig þjóðþing Evrópu hafa þagað um þann mikla gríska harmleik sem nú á sér stað í Evrópu.