140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að impra hér á málefnum Seðlabanka Íslands er virðist vera að breytast í ríki í ríkinu. Í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að ákærur voru gefnar út sem ekki áttu sér lagastoð þannig að Seðlabankanum var ekki heimilt að fara fram með mál einungis á sínum reglum vegna þess að lagastoð vantaði.

Það er líka nokkuð merkilegt í ljósi þess að nú er sífellt verið að endurskoða gjaldeyrishöftin. Nú síðast var verið að skoða gjaldeyrishöftin varðandi það frumvarp sem liggur fyrir þinginu um losunarkvóta. Það þarf að gefa undanþágur til að fyrirtæki á markaði sem þurfa að kaupa losunarheimildir geti gert það en slíkt er ekki hægt núna samkvæmt lögunum.

En það sem er ógeðfelldast er það sem segir í áliti Persónuverndar, að enginn seðlabanki safni viðlíka upplýsingum og Seðlabanki Íslands. Það kom fram í áliti frá Persónuvernd til efnahags- og skattanefndar og segir þar orðrétt, með leyfi forseta:

„Það er verðugt umhugsunarefni hvort svo sé komið að upplýsingasöfnun Seðlabanka Íslands fái ekki samrýmst nútímasjónarmiðum um einkalífsrétt í lýðræðisríki. Persónuvernd er ekki kunnugt um að nokkur annar seðlabanki í hinum vestræna heimi safni svo víðtækum persónuupplýsingum um borgara ríkisins …“

Það er mjög afgerandi hjá Persónuvernd en það sem er óhugnanlegast í öllu þessu máli er að Seðlabankinn telur að Persónuvernd hafi ekki umsagnarboðvald yfir Seðlabankanum og ætlar því að hunsa þessar niðurstöður og svara þeim í engu. Því spyr ég: Er Seðlabankinn ríki í ríkinu?