140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur flutt tvö mál um sjávarútveginn sem hér hefur verið talað um og ég hef flutt eitt mál um eignarhald á kvóta. Miklar deilur hafa spunnist um bæði mál ráðherrans innan stjórnarflokkanna og innan nefndarinnar sem fjallaði um þau. Þess vegna er hún enn að vinna í þeim. Bæði þessi frumvörp eru að mínu mati mjög skaðleg fyrir atvinnugreinina. Hið fyrra mun setja allt of háa skatta á hana og setja mörg fyrirtæki í gjaldþrot, óþarflega mörg, og hið síðara mun skaða atvinnugreinina til frambúðar og arðsemi hennar og þar með arðsemi þjóðarbúsins í heild þar sem þetta er mjög mikilvæg atvinnugrein. Auk þess sem allar aðgerðirnar miða að því að arðurinn af auðlindinni renni til ríkisins, og þá tala ég um Ríkið. Ríkið á að fá tekjurnar, ríkið á að fá að ráðskast með potta og pönnur í þessu dæmi og útgerðarmenn, bæði þeir sem eru starfandi í dag og þeir sem vilja hefja störf í atvinnugreininni, eiga mjög litla möguleika.

Ég spyr því hv. formann nefndarinnar, Björn Val Gíslason, hvort frumvarp það sem ég flyt tryggi ekki einmitt hagsmuni atvinnugreinarinnar því að eignin er skilgreind sem föst til frambúðar þó að hún sé afskrifuð og hvort hún hámarki ekki arðsemi greinarinnar því að framsalið er gjörsamlega frjálst og það tengist arðseminni. Er það ekki óneitanlega þannig að þjóðin fái heimildina því að ætlunin er að veiðihlutdeildir renni til íbúa landsins sem eru nokkurn veginn þjóðin að mínu mati?