140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[11:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil beina því til hv. þingmanns að ég held að hægt sé að túlka tölur með ýmsu móti og hafa sína sýn hver á þróunina en ég ítreka að varðandi þann mun sem varð á fjárheimildum og niðurstöðu í lokafjárlögum 2010 skipta sköpum þeir 33 milljarðar kr. sem leggja varð til inn í Íbúðalánasjóð vegna hruns íslensku bankanna, Seðlabankans og krónunnar.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þakkarorð í garð fjárlaganefndar og í minn garð. Ástæðan fyrir því að ég kom upp í andsvar var að þakka þingmanninum kærlega fyrir samvinnuna í þessu máli og ekki síst fyrir hlut hans í ítarlegri skoðun á frumvarpinu. Það var mikil vinna sem lögð var af mörkum, ekki síst af hans hálfu. Ég er sannfærð um að sú vinna mun nýtast okkur við vinnslu lokafjárlaga ársins 2011. Það hefur aukið skilning nefndarinnar á ríkisfjármálum og hinum ýmsu hliðum þeirra og eins höfum við farið þess á leit við fjármálaráðuneytið að framsetning á þeim fjárheimildum sem verið er að heimila flutning á í lokafjárlögum verði skýrari í þessum frumvörpum héðan í frá.

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir framlag hans í nefndinni.