140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[12:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa athugasemd. Þetta hefur sannarlega verið skoðað og ákveðnar áhyggjur komið fram um að tíminn til undirbúnings sé of skammur vegna þess að málið er löngu fram komið og við höfðum vonast til að vera búin að afgreiða það.

Það hefur einnig komið fram mjög ákveðinn vilji fyrir því um að lögin taki gildi í haust og fyrir því hafa verið færð gild rök að það sé jafnvel betra að hafa gildistökuna ekki endilega um áramót. Við ætluðum að reyna að setja kerfið þannig upp að þetta væri 12 mánaða tímabil, alveg burt séð frá áramótum. Þess vegna viljum við gjarnan halda okkur fast við þetta ákvæði en ef það kemur í ljós að tíminn er of skammur verðum við að sjálfsögðu að skoða það í haust hvort við þurfum að breyta gildistökunni. Mér finnst þau rök gild að hér séum við með einstaklingsmiðaðar áætlanir sem miði við 12 mánuði og þá finnst mér að mörgu leyti betra að gildistakan sé ekki akkúrat um áramót.