140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[13:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Örstutt í lok umræðunnar, ég tel að Alþingi þurfi að vinna áfram að þessu máli, fara yfir allan kostnað í heilbrigðiskerfinu. Einnig þarf að skoða vel það misræmi sem myndast hjá þeim sem lagðir eru inn á spítala og þeim sem standa utan við, það getur orðið mjög slæmt misræmi milli tveggja sjúklinga. Ég hygg að það leiði jafnvel stundum til þess að menn eru lagðir inn til að milda áföllin fyrir þá, sem er aukinn kostnaður fyrir ríkið því að þá er allt ókeypis.

Ég vil benda á að menn geta lent í smátjóni, þurfa kannski eitt pilluglas upp á 500 kall og síðan líða 12 mánuðir, eða 11, og þá verða þeir fyrir alvarlegu tjóni, bílslysi eða alvarlegum veikindum, sem kostar upp í mörkin þann mánuð og síðan næsta mánuð líka og þá borga þeir tvöfalt mörkin á tveim mánuðum. Öll fjölskyldan gæti lent í þessu, þetta eru stundum smitandi sjúkdómar eða bílslys þar sem allir sitja í bíl og þá getur það orðið þrefalt tjón fyrir hjón með eitt barn. Það getur hlaupið á hundruðum þúsunda eða farið vel yfir 100 þúsund. Ég vil benda á þetta því að þetta kerfi er ekki algott og ég hefði talið eðlilegra að börnin yrðu talin með til dæmis eldra foreldri eða öðru foreldranna.