140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

siglingalög.

348. mál
[13:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi bara árétta í tengslum við þetta mál að ég hef ekki verið með á nefndaráliti meiri hlutans um afgreiðslu á þessu máli í nefndinni. Ástæðan er ekki sú að ég sé í meginatriðum á móti efni frumvarpsins heldur hef ég talið að það vantaði nokkuð upp á skýrleika ákvæða til að þau yrðu auðframkvæmanleg. Jafnvel þó að þetta frumvarp verði að lögum núna í vor hygg ég að það komi til þess mjög fljótlega, jafnvel strax næsta vetur, að það þurfi að endurskoða þessi ákvæði með tilliti til aukins skýrleika.

Ég endurtek að um þetta mál er ekki pólitískur ágreiningur eða grundvallarágreiningur en ég vildi gera grein fyrir afstöðu minni við þessa umræðu.