140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

611. mál
[14:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að spyrja hv. framsögumann nefndarálitsins hvort nefndin hafi skoðað eða viti til þess að hér hafi verið settur á laggirnar markaður með losun koldíoxíðs. Samkvæmt reglum Evrópusambandsins var slíkt heimilt allt frá 2003, það eru komin níu ár síðan. Þetta eru gífurlegir hagsmunir fyrir Ísland, t.d. það að bændur geta farið að rækta upp mýrar eða rækta skóg og fengið það greitt vegna koldíoxíðsbindingar sem þeir stunda. Hafa menn farið með metangas og annað slíkt og fengið greitt á markaði fyrir það sem þeir spara í losun, og af hverju er ekki, ef það er ekki komið, markaður með koldíoxíðlosun á Íslandi? Hvernig í ósköpunum stendur á því?