140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

611. mál
[14:10]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að það er ekki hlutverk utanríkismálanefndar að endurmeta fyrirkomulag innanlandsumgjarðar utan um viðskipti með loftslagsheimildir. Við vorum að fara yfir það hvort létta bæri stjórnskipulegum fyrirvara vegna tiltekinnar tilskipunar og hvort hún fæli í sér eitthvert slíkt efni að rétt væri að gera það ekki. Það er verkefnið sem við þurfum að vinna og við verðum að gæta okkar á því að vera ekki með slettirekuskap gagnvart öðrum nefndum þingsins. Málið var sent umhverfis- og samgöngunefnd til umsagnar. Nefndin gerði ekki athugasemdir við málið en fyrir þinginu liggur frumvarp til innleiðingar á þessari tilskipun sem er til meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd og eðlilegt að hv. þingmaður beini athugasemdum sínum þangað.