140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

611. mál
[14:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það liggur við að ég biðjist forláts á slettirekuskapnum en ég var einmitt að tala um það efni sem hér er verið að innleiða. Það vill nefnilega svo til að þetta er sennilega mesta auðlind Íslands. Við erum að framleiða hér ál með rafmagni sem mengar ekki neitt á meðan um alla Evrópu er verið að framleiða ál með rafmagni sem er búið til með brennslu mókola, kola, gass, olíu o.s.frv. Svo maður tali nú ekki um Kína og önnur lönd sem hafa reyndar ekki innleitt þessar reglur, en þegar þau gera það, þegar menn uppgötva að jörðin er að hitna og það þarf að fara að gera eitthvað — ef ástæðan er sú sem menn trúa og ég er reyndar farinn að trúa því líka — þá mun orkuverð um allan heim stórhækka nema á Íslandi, frú forseti, vegna þess að íslensk orka er hrein. Þess vegna munu álverin á Íslandi geta borgað miklu hærra raforkuverð en annars staðar, miklu hærra. Mengunin er sennilega tólfföld við að framleiða eitt kíló af áli í Kína miðað við Ísland.

Þetta held ég að sé gífurleg auðlind fyrir Ísland og ég hefði vænst þess að hv. utanríkismálanefnd gæti þess í einni línu (Gripið fram í.) en hún gerir það ekki, enda er það slettirekuskapur að vera að nefna það að þetta gæti verið auðlind.