140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 32/2012 um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn.

612. mál
[14:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það mál sem við ræðum er reglugerð Evrópusambandsins sem snýr að endurskoðendum — skiptir reyndar ekki stóru máli því að verið er að flytja inn í Evrópusambandið endurskoðendur frá nokkrum löndum. En það er dálítið hlálegt að tveimur til þremur mánuðum fyrir hrun undirrituðu endurskoðendur ársreikninga bankanna sem sýndu gífurlegt eigið fé og fjöldamörg önnur stórfyrirtæki fengu sama stimpil. Tveimur til þremur mánuðum seinna var allt hrunið og litlu hluthafarnir sátu eftir með sárt enni, töpuðu öllu sínu, þjóðin tapaði, fyrirtæki urðu gjaldþrota o.s.frv. En ábyrgð endurskoðenda virðist ekki hafa verið nein. Þeir gerðu þetta bara samkvæmt lögum frá Evrópusambandinu um ársreikninga og lögum frá Evrópusambandinu um endurskoðendur.

Ég held að menn þurfi að fara að skoða þetta miklu betur. Ég ætla samt ekki að lengja þessa umræðu því að ég er eiginlega að tala fram hjá málinu.