140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 78/2011 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

621. mál
[14:18]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 78/2011 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund embættismenn frá utanríkisráðuneyti og fulltrúa Fjármálaeftirlitsins sem sinnt hafði þátttöku í fjölþjóðlegu löggjafarstarfi sem hefur leitt til þessarar miklu lagabreytingar. Málið var sent efnahags- og viðskiptanefnd og henni var gefinn kostur á að gefa álit á tillögunni en ekki bárust athugasemdir frá nefndinni um málið.

Með tillögunni er leitað fyrrgreindrar heimildar Alþingis sem felur í sér að breytt verði IX. viðauka við EES-samninginn og felld inn í hann tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 138 frá 2009 um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga.

Markmið þessarar tilskipunar er að auka vernd vátryggingartaka og setja skýrara regluverk um starfsemi vátryggingafélaga, meðal annars um gjaldþol og áhættustýringarstaðla, auk þess sem hert er á reglum varðandi eftirlit með starfsemi þeirra. Tilskipunin tekur til vátryggingafélaga með iðgjöld umfram 5 milljónir evra eða með vátryggingarskuld umfram 25 milljónir evra. Ákvæði tilskipunarinnar munu ekki ná til Viðlagatryggingar Íslands samkvæmt drögum að texta ákvörðunarinnar sem fylgir þingsályktunartillögunni.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og mun fyrirhugað frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra á 141. löggjafarþingi um breytingu á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 56/2010, með síðari breytingum, fjalla um það efni. Efni tilskipunarinnar fellur að áherslum Alþingis og stjórnvalda á undanförnum missirum um að auka stöðugleika og draga úr áhættusækni í fjármálakerfinu. Eftir framlagningu mun frumvarpið að líkindum koma til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd. Hvorki er gert ráð fyrir að væntanlegar lagabreytingar hafi umtalsverðan kostnað í för með sér né stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita auk mín hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson, Bjarni Benediktsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Helgi Hjörvar, Mörður Árnason, Ragnheiður E. Árnadóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.