140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

633. mál
[14:30]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Með þessari lagabreytingu er fest í lög að eigendur hesthúsa skuli greiða lægstu tegund fasteignagjalda og með því er komið í veg fyrir misræmi á milli hesthúsa á bújörðum og hesthúsa í þéttbýli. Það er vel. Hins vegar er með þeim innleitt misræmi sem stenst ekki skoðun, með þeim eru hestaleigur, tamningastöðvar og atvinnustarfsemi í hesthúsum sett í lægri flokk en til dæmis hjólaleigur, golfklúbbar, klifurhús, ferðafélög og alls kyns íþrótta- og tómstundastarfsemi án rökstuðnings og án ástæðu. Hestamennska er göfug íþrótt og holl hverjum þeim sem hana stundar en atvinnustarfsemi henni tengd er ekki göfugri en önnur atvinnustarfsemi og um hana eiga ekki að gilda aðrar reglur og ívilnandi.

Því flyt ég breytingartillögu um málið þar sem kveðið er á um að hesthús í tómstundaskyni skuli vera í a-flokki fasteignagjalda. Með henni er fest í gildi sú regla sem er í gildi í fjölmörgum sveitarfélögum þar sem hesthús í tómstundaskyni eru í a-flokki en rekstrarleyfisskyld starfsemi er flokkuð með annarri atvinnustarfsemi.

Ég vil enn fremur vara mjög við því vinnulagi meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar í þessu máli að breyta lögunum en fara jafnframt fram á að starfshópur kanni hvort hægt sé að flokka hesthús í atvinnutengda starfsemi og tómstundahesthús. Það er að mínu mati eins og að setja á sig hjálminn eftir reiðtúrinn.