140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

633. mál
[14:32]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að ég tek tekið undir þá breytingartillögu sem hann leggur til, að hestamennska í atvinnustarfsemi á hesthúsasvæðum þar sem menn og konur hafa lifibrauð sitt af því ætti kannski ekki að falla undir sama fasteignaskatt og þeir sem eingöngu stunda þar tómstundir: Hvar telur hann að við getum dregið mörkin? Nú eru ýmsir hestamenn sem stunda sitt sport en taka engu að síður að sér tvo til þrjá hesta í tamningu á vetri hverjum og hafa af því tekjur. Erum við þá að flokka þá starfsemi þess hesthúss undir atvinnustarfsemi eða erum við að tala um þegar þetta á sér stað í stærri og meiri mæli og ljóst er, algerlega, að þarna fari fram tamning og sala og annað í þeim dúr? Ég vil gjarnan fá svar hv. þingmanns við þessu.