140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

633. mál
[14:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni umhverfis- og samgöngunefndar fyrir að fylgja þessu máli hér úr hlaði og er mikið ánægjuefni að það sé komið á dagskrá. Varðandi þá breytingartillögu sem hv. þm. Róbert Marshall mælti fyrir hef ég mikinn skilning á því að að skýra þurfi þessa hluti. Ég lít hins vegar svo á eða geri lítinn greinarmun á því að fara þá leið sem meiri hluti nefndarinnar leggur til og því að færa ráðherra vald til að setja reglugerð byggða á einhverjum lögum þar sem ráðherra er falið að útfæra hlutina nánast eftir eigin höfði. Við höfum séð það við margs konar lagasetningu að slíkt er gert. En ég er sammála þingmanninum um að mikilvægt er að skilgreina þetta. Ég mælist því til þess að ráðherra, verði þetta mál samþykkt, hraði mjög þeirri vinnu, að slík skilgreining fari fram.

Ég vil líka koma því á framfæri, ekki ætla ég að fara að metast við meiri hluta nefndarinnar í þessu máli því að málið er gott, en 13. febrúar lögðum við fram, þingflokkur framsóknarmanna, þingmál sem lýtur að þessu sama sem var ætlað til þess að taka á þessu máli og þeim mismun sem þarna er. 19. mars kemur innanríkisráðherra með sitt mál fram. Að mínu viti hefði verið tiltölulega einfalt fyrir nefndina að samþykkja það frumvarp sem við lögðum fram í upphafi. Það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að ástæðan fyrir því að menn töldu ekki rétt að gera það er meðal annars sú setning að rætt er um útihús utan bújarða. Ég verð að segja að mér finnst nefndin fara býsna langt í að misskilja þessi orð, því að hvað er útihús? Það er skepnuhús, það er hús fyrir skepnur. En ég ætla ekki að gera meiri ágreining við nefndina.

Ég fagna því mjög að fara á að afgreiða þetta mál hér. Ég held að það sé til bóta fyrir alla þá sem sinna hestum og hestamennsku í tómstundum og síðan verðum við að fara í að greina hvenær eru tómstundir og hvenær ekki, stundum er þetta svona hálft í hvoru þannig að það getur kannski orðið snúið að skilgreina þetta nákvæmlega þegar hlutirnir blandast saman. Engu að síður er mjög gott að málið er komið fram og ég hvet eindregið til þess að það verði samþykkt eins og meiri hlutinn leggur til þrátt fyrir að vera pínusúr svona í lokin.