140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

633. mál
[14:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja ræðu mína á því að svara athugasemd sem kom fram í máli síðasta ræðumanns, hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, varðandi það ágæta frumvarp framsóknarmanna um svipað eða sama efni sem lagt var fyrir þingið í febrúar. Ég get upplýst að það frumvarp barst ekki til okkar í umhverfis- og samgöngunefnd heldur mun hafa endað hjá efnahags- og skattanefnd. Ekki veit ég hvers vegna þessi mál sem í sjálfu sér eru eðlisskyld lentu hjá mismunandi nefndum en við getum orðað það svo að umhverfis- og samgöngunefnd hafi það sér til afsökunar að hún fékk ekki það ágæta frumvarp til meðferðar. Hitt er annað mál að ég held að við getum öll fagnað því, eða flest, að málið er fram komið og innan nefndarinnar var nokkuð breiður meiri hluti fyrir þessu, þótt vissulega væru önnur sjónarmið líka reifuð í nefndinni, það var eins og endurspeglast í þeim umræðum sem hér eiga sér stað.

Varðandi málið vildi ég segja tvennt í þessari stuttu ræðu, annars vegar það að við stóðum frammi fyrir ákveðnu vandamáli sem fólk á sveitarstjórnarstiginu, m.a. borgarfulltrúar í Reykjavík, bar upp við okkur um það að þarna væri lagalegur vandi sem þyrfti að bregðast við. Ég get fallist á það með hv. þm. Róberti Marshall að auðvitað er langhentugast og best í svona tilvikum að reyna að greiða úr sem flestum álitamálum áður en til nokkurrar lagasetningar kemur. Ég held hins vegar að ekki sé hægt að áfellast okkur í meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar fyrir að afgreiða þetta mál núna og mæla með því að þingið samþykki það til að bregðast við aðstæðum, þótt ekki nema væri á þessu ári, vegna þess að ég held að við getum verið sammála um að bregðast þurfi við með einhverjum hætti. Hitt er svo annað mál að ákveðin rök eru fyrir því að fara í þá nefndarvinnu sem líka er talað um í nefndarálitinu með það fyrir augum að marka frekari framtíðarstefnu í þessu. Ég held að þarna sé um að ræða ákveðið hagsmunamat, ég held að það hafi verið ákveðnir og alveg ágætlega rökstuddir hagsmunir verulega stórs hóps fólks að fá breytingu á þessu núna á þessu ári. En ég get fallist á það í grundvallaratriðum að fara þarf yfir þetta. Raunar er ég þeirrar skoðunar að það þurfi að fara yfir fleira sem varðar álagningu þessara gjalda, fleira en lýtur bara að hesthúsum. En ég tel að það sé rétt að minnsta kosti að reyna í framtíðinni að finna leiðir til þess að greina málefnalega milli þeirrar starfsemi sem annars vegar má líta á sem hreina tómstundastarfsemi og hins vegar atvinnustarfsemi. Vandinn er ekki fyrir hendi varðandi mörg hesthús eða hús til hestaíþrótta en vandinn er vissulega stór varðandi ákveðinn hluta þar sem fyrir hendi er það sem við getum kallað blandaða starfsemi.

Ég held að það sé góð og praktísk lausn sem lögð er til af hálfu hæstv. ráðherra og sem meiri hluti nefndarinnar stendur á bak við og mæli með því að við samþykkjum málið í því horfi.