140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

633. mál
[14:42]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa talað hér um að það var nokkuð breið samstaða í umhverfis- og samgöngunefnd þegar kemur að þessu máli. Það er vissulega hárrétt sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson benti á, það var svo að Framsóknarflokkurinn lagði fram þingmál um leið og þessi mál komu upp, að ljóst var að verið var að setja hesthús í hærri flokka eftir að dómur féll þess efnis. Um mánuði síðar kom þetta frumvarp frá hæstv. ráðherra en engu að síður var full samstaða um það í nefndinni og meðal annars hjá þeim sem hér stendur, að lykilatriðið væri að taka á vandanum, hvort sem til grundvallar væri notað mál hæstv. innanríkisráðherra eða hv. þingmanna Framsóknarflokksins, m.a. þess sem hér stendur.

Eina atriðið sem aðeins var ágreiningur um í nefndinni snýr að því hvort skilja eigi á milli hesthúsa sem notuð eru í tómstundaskyni og atvinnuskyni. Tilgangur nefndarinnar nú var að koma í veg fyrir það að hesthús færu í þennan hærri skattflokk og þess vegna er mikilvægt að afgreiða þetta mál nú á vorþinginu. Vandinn við það að setja inn breytingartillögur eins og frá hv. þm. Róberti Marshall þar sem skilgreiningin yrði gerð, að það væru einungis hesthús í tómstundaskyni sem mundu falla í þennan lægri fasteignaskattsflokk, er sá, eins og kom fram í umræðunum fyrr, að mjög erfitt er að greina þarna á milli. Það getur oft verið svo að þrír eigendur séu að einu hesthúsi og einn af þeim eigendum nýti kannski helming aðstöðu sinnar í atvinnuskyni en hinir tveir og helmingurinn hjá þeim þriðja er í tómstundaskyni. Ég held að þess vegna sé mjög mikilvægt, eins og meiri hluti nefndarinnar leggur til og meðal annars sá sem hér stendur, að þetta verði bara skoðað, farið verði ofan í þetta og meiri hluti nefndarinnar var fyllilega meðvitaður um að það yrði að bregðast hratt við þessu máli og hitt yrði síðan að skoða í framhaldinu.

Ég styð þetta mál heils hugar og fagna þeirri samstöðu sem er um það hér í þingsalnum, enda mikilvægt að við hlúum vel að hestamennskunni. Þetta er mikilvæg íþrótt og þetta er mikilvæg tómstundaiðkun hér á landi og er líka mikilvæg útflutningsatvinnugrein. Við vitum að eftir því sem fleiri taka þátt í þessari íþrótt hér innan lands styður það einnig með óbeinum hætti við uppbyggingu íslenska hestsins á erlendri grund. Ég held að við alþingismenn, ekki bara í þessu máli heldur almennt í fleiri málum sem tengjast hrossarækt, ættum að skoða að setja af stað eitthvert átak til eflingar hrossaræktinni. Það er ljóst að hún hefur átt erfitt uppdráttar eftir hestaflensuna svokölluðu sem kom upp hérna fyrir nokkrum árum en fram að þeim tíma hafði verið mikil sókn í hrossarækt og mikil sókn í útflutningi á hrossum og öllu sem tengdist hestaiðkun. Ég held að það fari að koma að því að þingið og ríkisstjórnin, ef hún hefði dug í sér til þess, taki upp málefni hrossaræktarinnar, í henni felst mikil gjaldeyrismyndun, mikill stuðningur við ferðaþjónustu, og gera eitthvert átak í þeim efnum.

Ég held að um það gæti ríkt mjög góð sátt í þinginu líkt og er um þetta mál. Eins og ég segi, frú forseti, styð ég þetta mál heils hugar og fagna þeirri samstöðu sem er um það.