140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

barnalög.

290. mál
[15:26]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, framsögumanni nefndarinnar, fyrir framsögu hans og kynningu á nefndaráliti og tek undir með honum í flestu því sem þar kom fram.

Það er vert að horfa til þess að í 1. gr. þessa frumvarps til laga er kafli sem heitir Réttindi barns. Ég ætla að fá að lesa þann kafla, með leyfi forseta:

„Barn á rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi.

Óheimilt er að beita barn hvers kyns ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi.

Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess.

Barn á rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum sem það varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska.“

Öll getum við væntanlega tekið undir þetta. En þegar kemur að flestum þeim greinum sem barnalögin fjalla um taka þær greinar til foreldra, reyndar með hagsmuni barnsins að leiðarljósi, en oftar en ekki til foreldra og til þess reyna að koma í veg fyrir ágreining foreldra til þess að hagur barns sé ávallt í fyrirrúmi.

Með þessu frumvarpi til laga eru lagðar til nokkrar breytingar á gildandi barnalögum. Í umfjöllun nefndarinnar eru gerðar nokkrar veigamiklar breytingar, eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom inn á. Þær eru gerðar með það í huga að réttindi barnsins séu virt og frekar er gengið á réttindi foreldra.

Í frumvarpinu eru nýmæli sem afmarka með skýrari hætti en áður hlutverk foreldra, meðal annars með lögfestingu á inntaki sameiginlegrar forsjár. Það er tillaga um afnám þess fyrirkomulags að stjúp- og sambúðarforeldrar fái sjálfkrafa forsjá stjúpbarns við tilteknar aðstæður og þess í stað lagt til að stjúp- og sambúðarforeldrar og kynforeldri sem fer eitt með forsjá geti samið um að forsjá barns verði sameiginleg.

Hér er því reynt að setja hag barnsins í forgrunn þó að oft sé leitað leiða til að sætta foreldra sem annaðhvort hafa slitið sambúð eða skilið, eða að tryggja rétt foreldra til þess að umgangast barn sitt búi foreldrar ekki saman.

Mig langar að nefna sérstaklega að allt frá lögunum 2006 hefur sameiginleg forsjá verið meginregla og hér er verið að lögfesta slíkt sem ég tel gott vegna þess að það er afskaplega stórt og mikið mál að svipta foreldri forsjá. Foreldri er og verður foreldri og það er stórt skref að svipta foreldri forsjá og ætti sem sjaldnast að beita slíku. Þó svo að ég geri mér grein fyrir að stundum sé þörf á því þá er hagsmunum barnsins betur borgið ef forsjáin er sameiginleg þótt umgengnin sé takmörkuð á aðra hliðina.

Í frumvarpinu er lögð rík áhersla á ráðgjöf og sáttameðferð og inntakið er að það sé í raun og veru skylt að foreldrar sækist eftir ráðgjöf og sáttaferli. Ég held að þar séu stigin mikilvæg skref í þá átt að reyna að fækka ágreiningsmálum foreldra sem mun alltaf koma barninu til góða.

Í frumvarpinu leggur nefndin til að sá möguleiki verði skoðaður að í slíkri sáttameðferð og ráðgjöf verði barninu skipaður talsmaður til að styrkja ráðgjafar- og sáttaferlið með hagsmuni barnsins í huga.

Eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom inn á er einnig sett inn í frumvarpið heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá. Það eru ekki allir á eitt sáttir þar, en engu að síður var það álit meiri hluta nefndarinnar að setja ætti það inn. Þá er fyrst og síðast verið að horfa til þess réttar barnsins að fá að alast upp þar sem báðir foreldrar bera sameiginlega ábyrgð á uppeldinu og það sé sameiginleg ábyrgð foreldra að koma barni sínu til þroska.

Jafnframt er tekið fram í nefndaráliti hv. velferðarnefndar að dómara beri aðeins að dæma sameiginlega forsjá ef fyrir liggur að um jafnhæfa forsjárforeldra sé að ræða, ágreiningur þeirra á milli sé ekki svo djúpstæður að hann sé líklegur til að hafa áhrif á barnið og að foreldrar séu líklegir til að geta unnið í sameiningu að velferð barnsins og síðast en ekki síst að í hverju tilfelli fari fram mat á því hvort sameiginleg forsjá sé barni fyrir bestu.

Virðulegur forseti. Ég tel mikilvægt að árétta þetta.

Ég tel einnig mikilvægt að árétta að dómari hefur nú heimild til að dæma um lögheimili barns. Það er nýmæli og skiptir afar miklu máli. Töluverð umræða fór fram í nefndinni þar að lútandi sem og um tvöfalt lögheimili. Ég tel að það sé tímabært miðað við þær breytingar sem átt hafa sér stað á undanförnum árum þar sem börn eiga nú mörg hver heima á tveimur stöðum, að athugað sé hvort ekki sé hægt að festa það í sessi að svo sé þegar breyta á lögum um lögheimili.

Eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom inn á þurfum við líka að sjá til þess að barnabætur, meðlagsgreiðslur og ýmislegt annað sem tengist fjölskyldum fari ekki eingöngu til lögheimilisforeldris eins og nú er heldur njóti báðir foreldrar þess með einum eða öðrum hætti.

Ég tel rétt að nefna hér að forsjárlausu foreldri er heimilt að fá upplýsingar um barn sitt. Forsjárlaust foreldri getur óskað eftir upplýsingum um barn sitt, hvort heldur sem þær umsagnir eru skriflegar eða munnlegar, það er fest í sessi að það getur fengið upplýsingar um skóladvöl og leikskóladvöl barns síns.

Það er oft dálítið skondið að þegar rætt er um að forsjárlaust foreldri eigi rétt á upplýsingum um barnið sitt óttast menn það helst að einhverjar upplýsingar um forsjárforeldrið læðist með og það sé svo slæmt. Það kann að vera að það sé slæmt, en það er réttur barnsins að hið forsjárlausa foreldri viti líka eitthvað um barnið sitt og geti fylgst með hvernig því reiðir af, hvort heldur er í leikskóla eða í skóla.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um aðfararheimildina. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson gerði því ágætlega skil. Ég held hins vegar að vert sé að undirstrika það enn frekar að nefndin lagði áherslu á, eins og fram kemur í nefndarálitinu, að í ljósi þeirrar hættu og skaða sem margir telja að aðfarargerð valdi barni, telur nefndin að efla þurfi verklagsreglur í slíkri gjörð. Nefndin leggur til að það sé skoðað og jafnframt kemur það ávallt fram að aðförin fari ekki fram nema gerðarbeiðandi aðfarar sé sjálfur viðstaddur þannig að gerðarþoli geti þá afhent gerðarbeiðanda barnið, menn skulu hafa það í huga. En fyrst og síðast þarf að setja skýrar og skilmerkilegar verklagsreglur vegna þess að vissulega er þetta mikið inngrip í líf einstaklinga en tálmun á umgengni er líka stórt og mikið inngrip og einhvern veginn verður að koma í veg fyrir að annað foreldrið geti beitt hitt foreldrið slíku ofbeldi í gegnum barnið sem þau eiga saman. Áherslan verður því alltaf að vera á barninu. Þess vegna leggur nefndin til þessar verklagsreglur og breytingar að gerðarbeiðandi verður ávallt að vera viðstaddur.

Okkur nefndarmönnum hafa borist póstar varðandi 46. grein sem gerðar eru breytingar á. Þar stendur, með leyfi foreldra … með leyfi forseta. Sjálfsagt er þetta allt með leyfi foreldra, en þó ekki. Hefst nú lesturinn, með leyfi forseta:

„Ef annað foreldra barns er látið eða bæði, foreldri er ókleift að rækja umgengnisskyldur sínar við barn eða foreldri nýtur verulega takmarkaðrar umgengni á barnið rétt á umgengni við nána vandamenn þess foreldris eða aðra nákomna barni, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið.“

Hér er alltaf verið að horfa á barnið. Síðan langar mig að bera saman 47. gr. barnalaga fyrir og eftir breytingar. Í 47. gr. segir að sýslumaður geti úrskurðað um umgengni. Í 47. gr. núgildandi laga segir, með leyfi forseta:

„Nú er annað foreldra barns látið eða bæði, eða foreldri er ókleift að rækja umgengnisskyldur sínar við barn, og geta þá nánir vandamenn þess foreldris krafist úrskurðar sýslumanns um umgengni þeirra við barn í samræmi við 2. mgr.“

Það stendur í gildandi lögum.

Eftir breytingu á 47. gr. segir nú, með leyfi forseta:

„Sýslumaður úrskurðar með sama hætti um umgengni barns við nána vandamenn eða aðra nákomna skv. 46. gr. a enda verði umgengni talin til hagsbóta fyrir barnið.“

Þá kemur annað atriði, með leyfi forseta:

„Leita skal umsagnar þess foreldris sem á umgengnisrétt við barn þegar við á.“

Sýslumaður getur því ekki einn og sér úrskurðað með þeim hætti sem gert er í lögunum í dag, en engu að síður tel ég það þess virði vegna þeirrar beiðni sem fram hefur komið frá foreldrum að nefndin íhugi að taka málið inn á milli 2. og 3. umr. og skoða frekar 46. og 47. gr.

Virðulegur forseti. Þær breytingar sem hv. velferðarnefnd hefur lagt til á þessu frumvarpi til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, eru að mínu mati bæði merkilegar og góðar. Þar eru stór skref stigin í þá veru að setja barnalög í samhengi við veruleika barna í dag sem er ólíkur því sem hann var einu sinni þegar eingöngu ein fjölskylda var um hvert barn, nú eru oft tvær fjölskyldur og stundum fleiri um eitt barn. Þær breytingar sem nefndin hefur unnið að og leggur hér til eru að mínu mati allar mjög þarfar og bæta mjög lögin frá 2003. Ég ítreka hins vegar að slík lög þurfa alltaf bæði að vera í umræðu og þau þurfa líka sífellt að taka mið af þeim raunveruleika sem börn á Íslandi búa við hverju sinni.