140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

barnalög.

290. mál
[16:19]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég er áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd og hef fylgst sérstaklega með þessu máli. Mér finnst það skipta gríðarlega miklu í samfélagi okkar.

Barnalögin, hin nýrri, eru í raun og veru uppfærsla á lögunum út frá þeim veruleika sem hefur verið mjög lengi hér á landi og lögin hafa ekki endurspeglað. Þegar við fengum þessi lög til okkar var búið að taka mjög mikið úr þeim sem hafði upprunalega verið sett sem tillögur frá svokallaðri Hrefnunefnd. Ég fagna því að tillögurnar, sem voru unnar mjög faglega og ítarlega af Hrefnunefnd, hafa nánast allar komið aftur inn í frumvarpið.

Þetta er umbylting á barnalögunum og þótt sannarlega hefði mátt ganga aðeins lengra á sumum sviðum, sérstaklega varðandi þann lið að kostnaður falli ekki allur á umgengnisforeldri er lýtur að t.d. ferðalögum á milli landa og landshluta, fannst mér vinnan í nefndinni mjög góð. Ég má til með að hrósa hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni sem hefur haldið utan um málið fyrir afburða vandaða vinnu. Það var virkilega ánægjulegt að upplifa í nefndinni að það var alltaf vilji til þess að finna einhvern flöt á að koma því sem er fyrst og fremst börnunum fyrir bestu inn í þessi lög, en jafnframt foreldrunum. Gleymum því ekki að barn er ekkert sérstaklega hamingjusamt ef foreldrarnir eru óhamingjusamir eða ef mikil togstreita er á milli þeirra þegar þeir skilja.

Ég er rosalega ánægð að sjá hvað mikil áhersla er lögð á sáttaferlið og hef saknað þess að ekki hafi verið komið á skýrari leiðbeiningum og fyrirmælum um sáttameðferð því að hún getur skilað alveg ótrúlega miklum lífsgæðum fyrir barnið og velferð þess. Ég mundi vilja sjá og vona að við gerum það í næstu fjárlögum að tryggðir verði fjármunir til að hægt væri að framkvæma þessa sáttameðferð á sem faglegastan máta svo að það komi ekki flöskuháls eins og gerist oft.

Ég er mjög ánægð að dómaraheimildin var sett aftur inn, ekki út af því að ég vilji endilega sjá henni beitt heldur af því að hún er mjög mikilvægt aðhaldstæki og nauðsynleg ef allt annað hefur verið reynt til þrautar.

Töluvert var rætt um tvöfalt lögheimili. Það er öllu flóknara en maður gerði sér grein fyrir í fyrstu því að það er mjög margt sem þarf að breyta sem fellur ekki undir þessi lög heldur þyrfti að breyta í öðrum lögum. Ég held að það sé virkilega mikilvægt að skoða hvort hægt sé að breyta lögunum þannig í framtíðinni að ef sameiginleg forsjá skiptist 7/7, eða eitthvað slíkt, að báðir foreldrar standi jafnfætis. Þá hættir þetta að snúast svona mikið um „forræði“ og snýst meira um „umsjón“ með lífi barnsins.

Það er líka ánægjulegt að vel er skilgreint hvert hlutverk sameiginlegrar forsjár er. Mér finnst sérstaklega ánægjulegt að merkileg könnun hafi komið um það hversu góð áhrif sameiginlegt forræði með þessu tvískipta forræði hefur á börn. Hún var mjög mikilvægt innlegg í vinnuna. Þessi könnun kom akkúrat þegar við vorum með málið til umfjöllunar. Mér finnst svolítið mikilvægt líka að alltaf þegar við erum að vinna löggjöf sem lýtur að svo viðkvæmum málum sé það haft í huga að sníða þurfi lög sem henta fjöldanum í stað þess að vinna löggjöf sem stelur í raun og veru réttindum frá flestum út af fáum vandræðamálum. Mér finnst okkur hafa tekist ágætlega að vinna úr viðfangsefninu þannig að við fáum lög sem eru í takt við þann tíðaranda sem við búum við og taka jafnframt á erfiðum málum eins og tálmunum sem eru ekki bara erfiðar fyrir foreldra heldur fyrst og fremst fyrir börnin.

Það hefur ekki verið hægt að finna neina fullkomna leið til að fá fólk til að komast út úr þeirri sjálfshyggju að tálma umgengni foreldra og fjársektir hafa ekki virkað mjög vel. Í raun felst mikið ójafnræði í sektunum því að þeir sem þurfa fyrst og fremst að bregðast við þeim eru þeir sem eiga minni peninga og er því hvatinn ekki eins mikill fyrir fólk sem á meiri peninga.

Þetta er málefni sem skiptir mig miklu máli. Ég hef fylgst mikið með lögum og réttindum barna, sér í lagi gagnvart foreldrum, forsjárlausum og með forsjá. Mér fannst rosalega sorglegt að í samfélagi okkar var nánast enginn hvati sem tryggði að það foreldri sem var ekki með forsjá fengi að vera í heilbrigðum samskiptum og eiga heilbrigða hlutdeild í lífi barnsins síns og fengi að axla þá ábyrgð sem mjög margir foreldrar vilja axla.

Mér finnst líka mjög gott að með þessum lögum er tryggt að foreldri sem er ekki með forsjá hafi aðgengi eins og að Mentor, ekki bara til að fylgjast með hvort einkunnir séu góðar eða slæmar eða eitthvað sé að í skólanum heldur til að fá að taka þátt í öllum þessum stóru viðburðum í lífi barnsins, viðburðum sem flestir hugsa kannski ekki um sem stóra en eru það samt sem áður þegar horft er til langs tíma.

Ég er verulega þakklát fyrir að það hafi tekist að ná sátt um stóru pólana í þessu frumvarpi og okkur hafi tekist, að ég held, að laga þetta þannig að almenn sátt muni ríkja hjá öllum þessum mismunandi hagsmunahópum sem láta sér þessi málefni varða og hafa beina hagsmuni af. Fyrst og fremst er ánægjulegt að við erum vonandi að tryggja börnunum okkar meiri hamingju hér á landi.