140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

almenn hegningarlög.

344. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Í umræðum á undan var fjallað um breytingu á barnaverndarlögum og nú er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum. Með því er fyllt upp í samning Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og misnotkun. Mál sem snerta börn og ungmenni, velferð þeirra og heilsu eru ein mikilvægustu málin sem löggjafinn kemur að og því er mikilvægt að vanda vel til verka og endurskoða gildandi lög með tilliti til breytinga sem verða í þjóðfélaginu. Þær hafa verið örar á undanförnum árum og sem betur fer erum við sem þjóð orðin bæði upplýstari og meðvitaðri um hve alvarlegar afleiðingar brot, sérstaklega kynferðisbrot, gegn börnum hafa á einstaklinga alla ævi.

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum, það er samningur Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun.

Fyrir nefndina kom fjöldi gesta og eins bárust nefndinni fjölmargar umsagnir um málið sem voru jákvæðar og styrktu nefndina í vinnu sinni. Nefndin vann vel og samhent að afgreiðslu málsins sem er vel.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á almennum hegningarlögum í því skyni að innleiða í íslenskan rétt ákvæði samnings Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun. Hinn 15. mars sl. samþykkti þingið tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samningsins, það var 341. mál þingsins.

Helstu breytingar sem frumvarpið felur í sér eru eftirfarandi: Í 1. og 2. gr. er lögð til breyting á lögsögureglu laganna þannig að refsað skuli eftir íslenskum hegningarlögum fyrir brot íslenskra ríkisborgara eða manna sem búsettir voru hér á landi á verknaðarstundu og brot varðar við þau ákvæði sem þar eru tilgreind og lúta að kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. Refsað skal í þessum tilvikum samkvæmt íslenskum lögum óháð því hvort verknaði er lýst refsiverðum í lögum þess lands sem brot er framið í. Eftir gildistöku þessa frumvarps verður ekki lengur hægt að komast upp með að brjóta af sér gegn börnum í öðrum löndum þar sem lagaákvæðin ná ekki yfir slíkan verknað.

Lagt er til í 3. gr. að fyrningarfrestur mansalsbrota gegn börnum og brota sem lúta að vændi barna og þátttöku þeirra í nektarsýningum hefjist við 18 ára aldur þess sem í hlut á. Þá er í 4. gr. lagt til að því verði lýst sem refsiverðri háttsemi að mæla sér mót við barn með samskiptum gegnum netið eða með annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni í því skyni að hafa samræði eða önnur kynferðismök við barn eða áreita það kynferðislega með öðrum hætti.

Í 6. gr. felst tvenns konar breyting: Í a-lið er lagt til að í stað gildandi ákvæðis um barnaklám verði lögfest fyllra ákvæði sem taki til efnis þar sem börn eru sýnd á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Það er nýmæli að lagt sé til að því verði lýst sem refsiverðri háttsemi að framleiða, flytja inn, afla eða hafa í vörslu sinni efni þar sem einstaklingar sem náð hafa 18 ára aldri eru í hlutverki barns á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Í b-lið er lagt til að lögfest verði sérstakt refsiákvæði í almennum hegningarlögum sem taki á því er börn eru ráðin til að taka þátt í nektar- eða klámsýningum eða öðrum sýningum af kynferðislegum toga. Gert er ráð fyrir því að samsvarandi ákvæði barnaverndarlaga falli brott. Þetta eru mikilsverðar breytingar því að börn fara ekki af sjálfsdáðum út í slíka starfsemi, þau eru tæld eða fengin, keypt eða seld og því er mikilvægt að bregðast við þeirri starfsemi sem því miður hefur verið stunduð með því að tæla börn eða finna þeim kynferðislegt hlutverk á ýmsum sviðum.

Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um að sá sem mælir sér mót við barn yngra en 15 ára með samskiptum á netinu eða annarri upplýsingatækni í því skyni að hafa samræði við barnið eða önnur kynferðismök eða til að áreita það kynferðislega skuli sæta fangelsi allt að tveimur árum. Nefndin leggur til að ákvæðið nái ekki aðeins til þeirra tilvika sem einstaklingur mælir sér mót við barn með samskiptum á netinu eða með annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni. Lagt er til að við málsliðinn bætist „eða með öðrum hætti“, en undir það félli til að mynda það ef einstaklingur mælir sér mót við barn í því skyni sem tilgreint er í ákvæðinu með milligöngu annarra. Því er lagt til að ákvæðið nái einnig til tilvika þar sem haft er samband við barn með öðrum hætti en með samskiptum á netinu eða annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni í þeim tilgangi sem að framan er getið. Það gæti verið í gegnum vini eða kunningja sem eru þá fengnir til að koma á slíku sambandi.

Við meðferð málsins í nefndinni var nokkuð fjallað um þann mun sem er á refsihámarki milli annars vegar 200. og 201. gr. almennra hegningarlaga og hins vegar 202. gr. laganna. Tvær fyrrnefndu greinarnar eiga við um brot gegn eigin barni eða öðrum niðjum og brot gegn kjörbarni, stjúpbarni, fósturbarni, sambúðarbarni eða barni sem tengt er fjölskylduböndum eða einstaklingi sem trúað hefur verið fyrir. Samkvæmt 1. mgr. beggja greina varðar samræði eða önnur kynferðismök 8 eða 12 ára fangelsi, eftir því hvort barn hefur náð 16 ára aldri eða ekki. Hins vegar skal sá sæta fangelsi í að lágmarki 1 ár en í allt að 16 ár sem brýtur gegn 1. mgr. 202. gr. laganna sem varðar samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en 15 ára sem ekki er tengt viðkomandi geranda með þeim hætti sem að framan er getið. Þá varðar brot gegn 1. mgr. 194. gr. laganna um nauðgun fangelsi eigi skemur en 1 ári og allt að 16 árum. Nefndin telur mikilvægt að farið verði yfir samhengi framangreindra ákvæða kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga í því skyni að endurskoða greinarmun á refsihámarki eftir því hvort barn tengist geranda eður ei. Við umfjöllun um málið í nefndinni kom fram að slík skoðun sé nú þegar hafin hjá refsiréttarnefnd og fagnar nefndin því. Fram kom að búast mætti við því að tillögur um breytingu á framangreindum ákvæðum muni liggja fyrir í september á þessu ári. Nefndin hvetur innanríkisráðherra til að leggja fyrir þingið frumvarp til laga um breytingu á framangreindum ákvæðum strax í byrjun þings í haust.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu, sem hér var gerð grein fyrir og ég les nú upp:

Í stað orðanna „með samskiptum á netinu eða annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni“ í 4. gr. komi: með samskiptum á netinu, annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni eða með öðrum hætti.

Birgitta Jónsdóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara vegna a-liðar 6. gr.

Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta nefndarálit rita auk þeirrar sem hér stendur: Björgvin G. Sigurðsson formaður, Skúli Helgason, Þráinn Bertelsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Siv Friðleifsdóttir og Birgitta Jónsdóttir, með fyrirvara.