140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

myndlistarlög.

467. mál
[16:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til myndlistarlaga, frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar, á þskj. 1333, og eins fyrir breytingartillögum á þskj. 1334.

Nefndin fékk til sín mikinn fjölda gesta og bárust margar umsagnir sem leiðsögðu nefndinni í vinnu sinni, en flestar ábendingar og umsagnir voru jákvæðar og var góð samstaða í nefndinni að vinna að þessu máli. Hér er verið í fyrsta skipti að setja heildstæð lög um myndlist.

Með frumvarpinu, sem var áður lagt fyrir 135. löggjafarþing en varð ekki útrætt, er lagt til að sköpuð verði heildarumgjörð um skipan myndlistarmála og styrkveitingar ríkisins við málaflokkinn. Frumvarpinu er ætlað að koma í stað laga um Listasafn Íslands, nr. 58/1988, en við setningu safnalaga, nr. 106/2001, breyttist hlutverk þess á þann veg að það var skilgreint sem höfuðsafn á sviði myndlistar.

Helstu breytingarnar sem felast í frumvarpinu eru þær að gert er ráð fyrir því að safnaráð í núverandi mynd verði lagt niður í samræmi við skipan mála annarra höfuðsafna, Náttúruminjasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands. Frumvarpið skiptist í nokkra kafla. Í II. kafla eru ákvæði um Listasafn Íslands. Í III. kafla eru ákvæði um myndlistarráð og myndlistarsjóð og er um nýmæli að ræða en gert er ráð fyrir því að myndlistarráð verði ráðherra til ráðgjafar og annist úthlutun úr myndlistarsjóði. Ráðið skal stuðla að kynningu á íslenskum myndlistarmönnum og listsköpun þeirra og vinna að því að efla alþjóðlegt samstarf íslenskra myndlistarmanna og stofnana. Myndlistarsjóður á að veita fjárhagslegan stuðning til verkefna á sviði myndlistar til að efla hana og koma á framfæri hérlendis og erlendis. Í IV. kafla eru felld inn í frumvarpið ákvæði laga um listskreytingar opinberra bygginga og Listskreytingasjóð ríkisins, nr. 46/1998. Kveðið er á um það annars vegar að verja skuli 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar byggingar til listaverka í henni og umhverfi hennar. Hins vegar er mælt fyrir um að Listskreytingasjóður úthluti styrkjum til listaverka í eldri opinberum byggingum, þ.e. sem voru fullbyggðar fyrir 1. janúar 1999 þegar framangreind lög um listskreytingar opinberra bygginga öðluðust gildi.

Það sem einkum kom til umfjöllunar við meðferð málsins í nefndinni er eftirfarandi:

Í 1. mgr. 10. gr. er kveðið á um að ráðherra skipi fimm manna myndlistarráð og skal ráðherra tilnefna formann þess. Þá tilnefni Samband íslenskra myndlistarmanna tvo fulltrúa, Myndhöfundarsjóður/Myndstef einn og Listasafn Íslands einn. Lögð er til breyting á greininni í þá veru að Listfræðafélag Íslands tilnefni einn fulltrúa í ráðið í stað þess fulltrúa sem í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Myndstef tilnefni. Verði frumvarpið svo breytt að lögum mun Samband íslenskra myndlistarmanna tilnefna tvo fulltrúa í myndlistarráð, Listfræðafélag Íslands einn og Listasafn Íslands einn. Sá fimmti yrði tilnefndur af ráðherra og yrði sá formaður ráðsins.

Lagt er til breytt heiti IV. kafla frumvarpsins þannig að við bætist tilvísun til útisvæða enda eiga ákvæði hans að hluta til við um verk á útisvæðum.

Lögð er til breyting á 13. gr. um opinberar byggingar þannig að þar verði einnig vísað til útisvæða í opinberri eigu, samanber 17. gr. frumvarpsins. Jafnframt er lagt til að í 2. mgr. verði vísað til þess að byggingar sveitarfélaga og stofnana þeirra geti talist opinberar byggingar. Þá er lagt til að kveðið verði á um að opinberar byggingar séu ekki þær byggingar þar sem aðgengi er takmarkað í stað þess að vísa til þess að bygging standi fjarri alfararleið.

Í 14. gr. er mælt fyrir um að verja skuli 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til kaupa á listaverkum í byggingunni og umhverfi hennar. Í athugasemdum með greininni kemur fram að ákvæðið skjóti ekki loku fyrir að þetta hlutfall sé hærra ef fjárhagslegt svigrúm leyfi. Nefndin leggur því til breytingu á 1. málslið 14. gr. þess efnis að verja skuli að minnsta kosti 1% af heildarbyggingarkostnaði til kaupa á listaverkum.

Í 20. gr. er kveðið á um að listaverk sem hafi notið framlaga samkvæmt lögunum sé eign íslenska ríkisins og hafi listaverk einnig notið framlaga annarra aðila skiptist eignarréttur í réttu hlutfalli við framlög. Við umfjöllun um málið var lýst efasemdum um að mælt væri fyrir um eignarrétt með þessum hætti og að það gæti skapað flækjur í framkvæmd, svo sem ef flutningur málaflokka leiddi til þess að húsnæði færðist frá ríki til sveitarfélaga. Nefndin leggur til að 1. mgr. greinarinnar verði einfölduð nokkuð, þ.e. að þar verði mælt fyrir um að listaverk sem hafa notið framlags samkvæmt lögunum teljist í opinberri eigu og að verk sem hafa notið styrks úr Listskreytingasjóði skuli vera aðgengileg almenningi.

Í 22. gr. er ráðherra veitt heimild til að setja nánari ákvæði um framkvæmd laganna í reglugerð. Lagt er til að ráðherra skuli hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga að því er varðar verkefni á sveitarstjórnarstigi.

Í 6. gr. er sérstakt ákvæði um lán Listasafns Íslands á listaverkum. Fram komu athugasemdir við greinina í þá veru að það gæti reynst nokkur fjárhagslegur baggi fyrir til að mynda söfn úti á landi að fá lánuð verk frá safninu. Þar kemur einkum til krafa um greiðslu umsýslugjalds og trygginga auk þess sem nokkur kostnaður getur falist í flutningum. Meiri hlutinn telur mikilvægt að komist verði að samkomulagi og ef til vill settar reglur um skiptingu á kostnaði í slíkum tilvikum til að tryggja að minni söfn ráði við þann kostnað sem eðlilega hlýst af lánum listaverka. Þá telur meiri hlutinn brýnt að hugað verði að setningu reglna um greiðslur til höfunda myndverka fyrir afnot af verkum þeirra til dæmis þegar verk eru lánuð, og er þetta nýmæli.

Við meðferð málsins í nefndinni var nokkuð fjallað um þá breytingu sem verður á löggjöf um Listasafn Íslands verði frumvarp þetta að lögum enda falla þá lög um Listasafn Íslands úr gildi en um safnið gilda ákvæði II. kafla frumvarpsins. Meiri hlutinn hvetur ráðherra til að huga að undirbúningi samræmdrar löggjafar um höfuðsöfnin þrjú, Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands, sem segir til í safnalögum.

Meiri hlutinn bendir á að í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis um málið kemur fram að lögfesting frumvarpsins ætti ekki að hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð heldur muni þau ráðast af framlögum fjárlaga hverju sinni. Nefndin bendir á að frumvarpið er lagt fram í því skyni að styrkja myndlistargeirann umfram það sem er nú, meðal annars með stofnun nýs myndlistarráðs sem verði hliðstætt leiklistarráði, tónlistarráði og stjórn bókmenntasjóðs. Þá bendir meiri hlutinn á að styrkja þurfi stöðu Listasafns Íslands sem er orðin mjög þröng og nauðsynlegt er að rekstur þess verði styrktur á næstu árum.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Skúli Helgason og Þorgerður K. Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið skrifa auk þeirrar sem hér stendur Björgvin G. Sigurðsson formaður, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Þráinn Bertelsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Birgitta Jónsdóttir.

Hæstv. forseti. Breytingartillögurnar komu fram í nefndarálitinu og tel ég því ekki ástæðu til þess að lesa þær sérstaklega.